Erlent

Drap eiginkonu sína með hrífu vegna framhjáhalds

Sylvía Hall skrifar
Todd og Amy Mullis.
Todd og Amy Mullis. Facebook
Todd Mullis, 42 ára gamall maður frá Earlville í Iowa í Bandaríkjunum, er grunaður um að hafa myrt 39 ára gamla eiginkonu sína með hrífu eftir að hann komst að framhjáhaldi hennar. Konan hafði varað vini sína og elskhuga við því að Mullis væri líklegur til að „láta hana hverfa“ ef hann kæmist að framhjáhaldinu. People greinir frá.

Amy, eiginkona Mullis, fannst látin þann 10. nóvember á síðasta ári með stungusár eftir hrífu. Mullis tilkynnti sjálfur andlátið eftir að sonur þeirra hjóna fann móður sína og hélt því fram að eiginkona sín hefði dottið á hrífuna með þeim afleiðingum að hún lést. Hann fjarlægði hrífuna áður en hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún var úrskurðuð látin.

Eftir skoðun réttarmeinafræðinga kom í ljós að stungusárin voru sex en aðeins fjórir oddar voru á hrífunni og vaknaði grunur um að Amy hefði ekki látist af slysförum.

Mánuðum fyrir andlátið hafði Amy rætt hjónabandsvandamál sín við vini sína. Hún hafði átt í leynilegum ástarsamböndum við aðra menn þar sem ástin hafði fjarað út og hún hefði áhyggjur af því að Mullis myndi myrða hana vegna þess. Þá þorði hún ekki að fara frá honum af ótta við afleiðingarnar.

Við skoðun á iPad-spjaldtölvu Mullis kom í ljós að hann hafði flett upp leitarorðum á borð við „líffæri líkamans“, „að myrða ótrúar konur“ og „hvað kom fyrir ótrúa maka í ættbálkum Azteka“ fyrir morðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×