Erlent

„Kraftaverk“ að systur hafi fundist á lífi eftir 44 klukkustundir í óbyggðum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leia og Caroline Carrico.
Leia og Caroline Carrico. AP/Lögreglan í Humboldt-sýslu
Leia og Caroline Carrico, átta og fimm ára systur sem hurfu frá heimili sínu í norðurhluta Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum á föstudag, fundust heilu og höldnu í gær. Haft er eftir viðbragðsaðilum að það sé kraftaverki líkast að stúlkurnar hafi fundist á lífi eftir þetta langan tíma í svo erfiðum skilyrðum.

Slökkviliðsmenn sem tóku þátt í umfangsmikilli leit að stúlkunum gengu fram á Leiu og Caroline í skóglendi rúma tvo kílómetra frá heimili þeirra. Aðstæður til leitar voru nokkuð erfiðar en mikið hafði rignt á svæðinu undanfarna daga. Systurnar voru kaldar og blautar en ómeiddar og upplitsdjarfar þegar þær fundust, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á svæðinu.

Haft er eftir William Honsal, lögreglustjóra í Humboldt-sýslu þar sem stúlkurnar búa, að þær hafi notfært sér þjálfun sem þær hlutu á skátanámskeiði í heimabænum og því farnast jafnvel og raun bar vitni. Þá sé magnað að systurnar hafi lifað af við svo erfið skilyrði.

„Þetta er algjört kraftaverk. […] Hvernig þær voru þarna úti í 44 klukkustundir, það er frekar ótrúlegt.“

Von kviknaði í brjósti björgunarfólks á laugardag eftir að það gekk fram á fótspor eftir stúlkurnar og umbúðir utan af  orkustykkjum, sem þær höfðu tekið með sér að heiman.

Mynd af því þegar viðbragðsaðilar ræða við Leiu, eldri stúlkuna, nokkrum mínútum eftir að hún fannst hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Umrædda færslu lögreglunnar í Humboldt-sýslu má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×