Erlent

Viðurkenndu aðild sína að GoFundMe-svikamyllu

Andri Eysteinsson skrifar
Johnny Bobbitt Jr, Kate McClure og Mark D'Amico
Johnny Bobbitt Jr, Kate McClure og Mark D'Amico AP/Elizabeth Robertson
Fyrrum hermaðurinn Johnny Bobbitt, játaði í dag fyrir dómi aðild sína að svikamyllu ásamt Katelyn McClure og fyrrverandi kærasta hennar Mark D‘Amico. BBC greinir frá.

Þríeykið hafði komist í fréttir eftir að McClure sagði frá því að Bobbitt sem var heimilislaus hafi gefið henni síðustu tuttugu dalina sem hann átti til þess að hún gæti keypt eldsneyti á eldsneytislausan bíl sinn. McClure stofnaði í kjölfarið GoFundMe- söfnunarsíðu til þess að afla fjár fyrir fyrrum hermanninn Bobbitt.

Saga þeirra breiddist víða og gáfu meira en 14.000 manns alls staðar að úr heiminum pening í söfnunina. Meira en 400.000 dalir söfnuðust en það gera um 48.500.000 kr.

Í stað þess að nota peninginn sem safnaðist til þess að hjálpa Bobbitt, eyddu McClure og D‘Amico fénu í nýjan BMW bíl, ferðalög til Las Vegas svo dæmi séu nefnd. Bobbitt létu þau fá 75.000 dali.

Eftir að Bobbitt, sem var ósáttur við sinn hlut, kærði parið rannsökuðu yfirvöld málið nánar.

Í ljós kom að McClure og D‘Amico höfðu kynnst Bobbitt nokkru áður en söfnunin hófst. Útlit er fyrir að McClure gæti átt yfir höfði sér 33 mánaða fangelsisvist en Bobbitt milli 6-30 mánaða dóm.

Mark D‘Amico hefur líkt og McClure og Bobbitt verið ákærður fyrir aðild sína í fjársvikunum en hann hefur þó einnig verið kærður af fjölskyldu McClure fyrir að hafa neitað að yfirgefa húsnæði hennar eftir sambandsslit þeirra í ágúst.


Tengdar fréttir

Hjartnæm saga og fjáröflun reyndist svikamylla

Það vakti mikla athygli á heimsvísu þegar bandarísk kona birti í fyrra sögu um að heimilislaus maður eyddi síðustu peningunum sínum til að hjálpa henni þegar hún varð eldsneytislaus í New Jersey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×