Erlent

Rússneskum hermönnum bannað að nota snjallsíma í vinnunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessi hermaður þarf að fá sér einfaldari síma verði frumvarpið að lögum.
Þessi hermaður þarf að fá sér einfaldari síma verði frumvarpið að lögum. AP/Petr David Josek
Neðri deild rússneska þingsins hefur samþykkt lagafrumvarp þess efnis að hermönnum í rússneska hernum sé bannað að nota snjallsíma á meðan þeir eru við skyldustörf. BBC greinir frá.

Bannið nær til allra síma sem geta tekið myndir, myndbönd og veita aðgang að internetinu, auk spjaldtjölva með sömu eiginleika. Hermenn mega þó áfram nota einfaldari síma sem einungis hægt er að hringja með eða senda skilaboð.

Þá mun hermönnum einnig verið bannað að tala við blaðamenn auk þess sem þeir mega ekki skrifa um málefni hersins.

Hernaðaryfirvöld í Rússlandi hafa haft áhyggjur af notkun snjallsíma á meðal hermannna og að þannig sé hægt að fylgjast með ferðum þeirra.

Samfélagsmiðlanotkun rússneskra hermanna hefur meðal annars komið upp um veru þeirra í Úkraínu og Sýrlandi á sama tíma og rússnesk stjórnvöld héldu því fram að engir hermenn á vegum hersins væru staðsettir þar.

Efri deild rússneska þingsins fær nú frumvarpið til meðferðar og verði það samþykkt þar verður það að lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×