Erlent

Ætla að stefna Mueller verði skýrslan ekki gerð opinber

Kjartan Kjartansson skrifar
Rannsókn Mueller hefur vofað yfir forsetatíð Trump forseta í hátt á annað ár.
Rannsókn Mueller hefur vofað yfir forsetatíð Trump forseta í hátt á annað ár. Vísir/EPA
Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings segjast tilbúnir að stefna Robert Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, til að bera vitni fyrir þingnefnd ef ráðuneytið kýs að birta ekki skýrslu hans. Talið er að rannsókn Mueller á meintu samráði forsetaframboðs Donalds Trump sé á lokametrunum.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að Mueller gæti skilað skýrslu um rannsókn sína á næstu vikum. Það væri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins hvort hún yrði birt opinberlega. William Barr, nýr dómsmálaráðherra sem Trump forseti tilnefndi, tók nýlega við völdum í ráðuneytinu.

Adam Schiff, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar, segir að ef ráðuneytið veitir Bandaríkjaþingi ekki aðgang að niðurstöðum Mueller í heild sinni séu demókratar bæði tilbúnir að stefna Mueller til að koma fyrir nefndina og krefjast birtingar hennar fyrir dómi.

„Á endanum held ég að ráðuneytið skilji að þau verða að gera þetta opinbert. Ég held að Barr muni skilja það á endanum líka,“ sagði Schiff í sjónvarpsviðtali í gær.

Samkvæmt reglum dómsmálaráðuneytisins á skýrsla Mueller að vera trúnaðarskjal um alla þá sem voru ákærðir í rannsókninni en einnig aðra sem komu við sögu en voru ekki ákærðir. Eftir að skýrslan berst er það ráðherrans að láta þingið vita af því að rannsókninni sé lokið, að sögn Washington Post.

Þegar Barr kom fyrir þingnefnd áður en hann var staðfestur í embætti sagði hann það markmið sitt að veita „eins mikið gegnsæi og ég get í samræmi við lög“.

Rannsókn Mueller hefur staðið yfir í tæp tvö ár. Hann var skipaður sérstakur rannsakandi ráðuneytisins í kjölfar þess að Trump forseti rak James Comey, þáverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, í maí árið 2017. FBI hafði þá rannsakað meint samráð framboðs Trump við Rússa. Mueller-rannsóknin hefur einnig beinst að því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með því að reka Comey.


Tengdar fréttir

Mueller ekki við það að klára

Robert Mueller, sérstakur saksóknari dómsmálaráðuneytisins, mun ekki skila skýrslu um rannsókn sína í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×