Innlent

Vilja skoða hvort loka þurfi fyrir aðgengi að Ölfusá

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá aðgerðum í dag.
Frá aðgerðum í dag. Vísir/Jói K.
Formlegri leit að Páli Mar Guðjónssyni, sem leitað hefur verið að í Ölfusá í dag og í gær, hefur verið hætt í dag. Lögreglan vill skoða hvort loka þurfi fyrir aðgengi að ánni.

Páll er talinn hafa ekið bíl sínum út í ána um klukkan 22 í gærkvöldi en fjölmennt lið lögreglu og björgunarsveita, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar var kallað út. Umfangsmikil leit hófst aftur í dag en um 100 björgunarsveitarmenn komu að leitinni, sem hefur ekki borið árangur.

„Leit er formlega lokið í dag. Það verða sjónpóstar á ánni fram í myrkur og það er búið að skipuleggja leit aftur á morgun. Hún verður ekki jafn umfangsmikil og hún var í dag og svo dregur úr fram að helgi. Svo verður fullur þungi settur í leitina um helgina,“ sagði Garðar Már Garðarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Bílar hafa áður farið í ána og hefur hún verið girt af að hluta í grennd við brúna. Engin girðing er þar sem talið er að bílnum hafi verið ekið í ána. Var Garðar Már spurður að því hvort tímabært væri að loka fyrir aðgengi að ánni í bænum.

„Það er eitt af því sem við höfum rætt í dag og þarf bara að skoða. Það er ljóst að hún er hættuleg hérna brúnin og þetta er eitthvað sem þarf að vinna með bæjaryfirvöldum,“ sagði Garðar og bætti við slíkt hafi verið rætt óformlega í dag.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var ranglega sagt að nafn Páls væri Pétur. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×