Viðskipti innlent

Arion, Capacent og Landsbankinn hækka verðmöt sín á Marel

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. Greinendur líta framtíð félagsins björtum augum. Fréttablaðið/Anton Brink
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. Greinendur líta framtíð félagsins björtum augum. Fréttablaðið/Anton Brink
Greinendur þriggja fyrirtækja hækkuðu fyrr í vikunni verðmöt sín á Marel og telja að þrátt fyrir mikla hækkun á hlutabréfaverði félagsins undanfarnar vikur eigi bréfin nokkuð inni.

Greiningardeild Arion banka metur gengi hlutabréfa í Marel á 513 krónur á hlut sem er 7,6 prósenta hækkun, í krónum, frá síðasta verðmati í desember. Nýjasta verðmat greinenda Capacent hljóðar upp á 560 krónur á hlut og þá metur hagfræðideild Landsbankans gengi bréfanna á 499 krónur á hlut sem er 7,1 prósents hækkun, einnig í krónum, frá því í byrjun síðasta mánaðar.

Til samanburðar stóð gengi hlutabréfa í Marels í 490 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Hafa bréfin hækkað um ríflega 21 prósent í verði undanfarinn mánuð.

Verðmöt greinendanna eru þannig umtalsvert hærri en núverandi gengi bréfanna. Munurinn er hins vegar áberandi minnstur, eða aðeins um 1,8 prósent, í tilfelli Landsbankans sem ráðleggur fjárfestum að halda hlutabréfum sínum í Marel.

Greiningardeild Arion banka bendir á að uppgjör Marels fyrir fjórða fjórðung síðasta árs, sem hafi verið vel umfram væntingar, skýri að mestu leyti hærra verðmat deildarinnar.

Hvað varði mögulegar skýringar á hækkun hlutabréfa félagsins undanfarið nefna þeir til að mynda að hlutabréf í sambærilegum fyrirtækjum hafi hækkað, félagið hafi nýverið skilað sterku fjórðungsuppgjöri og þá hafi nýir erlendir fjárfestar jafnframt verið að kaupa bréf í félaginu.

Í verðmati Arion banka er tekið fram að auðveldlega megi færa rök fyrir því að nýleg hækkun hlutabréfa í Marel eigi að hvetja innlenda stofnanafjárfesta, líkt og lífeyrissjóðina, til þess að draga aðeins úr eignarhaldi sínu í félaginu.

Hins vegar eiga greinendur bankans ekki endilega von á því að sú verði raunin. Eignarhlutur umræddra fjárfesta í Marel sé ekki sérstaklega stór í samanburði við stærð Marels á íslenska hlutabréfamarkaðinum og þá sé ólíklegt að fjárfestarnir telji að vægi innlendra hlutabréfa í eignasöfnum sínum sé óþægilega hátt.

Greinendur Landsbankans segjast ekki gera ráð fyrir neinum grundvallarbreytingum í starfsemi Marels á þessu ári miðað við það sem þeir gerðu ráð fyrir í síðasta verðmati í janúar.

Þeir benda á að dregið hafi úr vexti nýrra pantana á síðustu fjórum ársfjórðungum og þá sé pantanabókin 10 prósentum minni en hún var í lok mars í fyrra. Hins vegar spá sérfræðingar bankans 6 prósenta söluvexti í ár sem sé í samræmi við langtímamarkmið stjórnenda félagsins. 

Til samanburðar jukust tekjur Marels um 15,4 prósent á síðasta ári en félagið skilaði mettekjum, 331 milljón evra, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.


Tengdar fréttir

Bætir við sig í Marel fyrir um milljarð

Fjárfestingasjóður í stýringu evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital bætti í liðinni viku við sig ríflega tveimur milljónum hluta í Marel, að virði um 940 milljónir króna, og fer nú með samanlagt 7,3 milljónir hluta í félaginu, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa þess.

Kominn með um sex milljarða hlut í Marel 

Fjárfestingasjóður í stýringu evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital heldur áfram að bæta verulega við sig í Marel en í síðustu viku keypti sjóðurinn tæplega fimm milljónir hluta, að virði um 2.300 milljónir króna, í félaginu.

Vogunarsjóður kaupir í Marel fyrir 2 milljarða 

Evrópski sjóðurinn Teleios Capital hefur eignast 0,77 prósenta hlut í Marel. Kom fyrst inn í hluthafahóp félagsins í byrjun síðustu viku. Fjárfestir einkum í skráðum fyrirtækjum í Norður-Evrópu með markaðsvirði undir þremur milljörðum dala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×