Innlent

Fyrr­verandi borgar­stjóri í for­sætis­ráðu­neytið

Atli Ísleifsson skrifar
Steinunn Valdís Óskarsdóttir var borgarstjóri í Reykjavíkur á árunum 2004 til 2006.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir var borgarstjóri í Reykjavíkur á árunum 2004 til 2006. Forsætisráðuneytið
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur, skrifstofustjóra yfir nýrri skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að umsækjendur um embættið hafi verið þrjátíu talsins. Ráðgefandi hæfnisnefnd mat sex umsækjendur vel hæfa og var Steinunn Valdís ein þeirra.

„Steinunn Valdís Óskarsdóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla árið 2018. Árin 1986-1987 var Steinunn Valdís stjórnarráðsfulltrúi á launaskrifstofu fjármálaráðuneytis, borgarfulltrúi árin 1994-2007 og borgarstjóri í Reykjavík 2004-2006. Steinunn Valdís átti sæti á Alþingi 2007-2010. Frá 2011-2017 var hún sérfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu innviða í innanríkisráðuneytinu. Frá febrúar 2017 hefur hún starfað sem sérfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Steinunn Valdís hefur víðtæka þekkingu á jafnréttismálum. Hún starfaði m.a. fyrir Kvenfélagasamband Íslands árin 1992-1998 og sem framkvæmdastjóri kvennaheimilisins Hallveigarstaða 1996-1998. Hún var borgarfulltrúi fyrir Kvennalistann og síðar Reykjavíkurlistann og sat á þeim tíma í jafnréttisráði. Hún var formaður jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar og formaður Svanna, lánatryggingarsjóðs kvenna um árabil,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×