Menning

Stjórn ÍKSA furðar sig á „ó­rök­studdum á­sökunum“ Huldu Rósar um spillingu

Atli Ísleifsson skrifar
Edduverðlaunahátíðin fer fram í Austurbæ næstkomandi föstudag, 22. febrúar.
Edduverðlaunahátíðin fer fram í Austurbæ næstkomandi föstudag, 22. febrúar. Eddan
Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) segist furða sig á ásökunum Huldu Rósar Guðnadóttur kvikmyndagerðarkonu um spillingu í störfum akademíunnar og segir þær órökstuddar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ÍKSA sem send var á fjölmiðla í kvöld. ÍKSA stendur fyrir afhendingu Edduverðlaunanna á ári hverju.

Málið má rekja til þess að Hulda Rós krafðist fyrr í vikunni skýringa á ástæðum þess að 690 Vopnafjörður, sem tilnefnd var til Eddunnar í flokki heimildarmynda af valnefnd, hafi verið fjarlægð þegar tilnefningar til verðlaunanna hafi verið gerðar opinberar.

 



Í pósti frá ÍKSA er einnig að finna yfirlýsingu frá Hlín Jóhannesdóttur, formanni ÍKSA, þar sem segir að sú breyting hafi orðið á áður kynntum tilnefningum til Eddunnar 2019 í flokki heimildamynda, að tilnefning myndarinnar 690 Vopnafjörður falli út og í hennar stað sé tilnefnd myndin Litla Moskva.

„Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar áttar sig á alvarleika málsins og harmar þau mistök sem áttu sér stað þegar upphaflega var tilkynnt um tilnefningar og biður aðstandendur heimildamyndarinnar 690 Vopnafjörður innilega afsökunar á þeim.

Umrædd mistök má rekja til þess að formaður Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar veitti 690 Vopnafjörður undanþágu til umsóknar um Edduverðlaun 2019 án þess að hafa heimild stjórnar fyrir því og byggði sú undanþága á ófullnægjandi upplýsingaleit,“ segir í yfirlýsingunni frá Hlín.

Að neðan má sjá yfirlýsingarnar frá formanni ÍKSA annars vegar og stjórn hins vegar í heild sinni:

Yfirlýsing frá formanni stjórnar ÍKSA vegna heimildamyndarinnar 690 Vopnafjörður

Sú breyting hefur orðið á áður kynntum tilnefningum til Eddunnar 2019 í flokki heimildamynda, að tilnefning myndarinnar 690 Vopnafjörður fellur út og í hennar stað er tilnefnd myndin Litla Moskva.


Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar áttar sig á alvarleika málsins og harmar þau mistök sem áttu sér stað þegar uphaflega var tilkynnt um tilnefningar og biður aðstandendur heimildamyndarinnar 690 Vopnafjörður innilega afsökunar á þeim.

Umrædd mistök má rekja til þess að formaður Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar veitti 690 Vopnafjörður undanþágu til umsóknar um Edduverðlaun 2019 án þess að hafa heimild stjórnar fyrir því og byggði sú undanþága á ófullnægjandi upplýsingaleit. 

Yfirlýsing stjórnar Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar vegna órökstuddra ásakana um spillingu

Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, ÍKSA,  furðar sig á órökstuddum ásökunum félagsmanns um spillingu í störfum akademíunnar, sem birtist í fjölmiðlum nýverið.


ÍKSA er sameiginlegur vettvangur hagsmunafélaga kvikmyndagerðarmanna í landinu, með það eitt að markmiði að stuðla að eflingu íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirans. Í þessu skyni stendur ÍKSA  m.a. fyrir veitingu Eddunnar, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna, ár hvert.

Stjórnarmeðlimir eru tilnefndir af fagfélögum innan sjónvarps- og kvikmyndageirans til tveggja ára í senn og vinna út frá starfsreglum Eddunnar.

Undirrituð starfa af heilindum fyrir ÍKSA og vísa ásökunum um spillingu alfarið á bug.

Hlín Jóhannesdóttir, SÍK formaður

Stefanía Thors, FK, ritari

Helga Rakel Rafnsdóttir, SKL, meðstjórnandi

Fahad Jabali, FK, meðstjórnandi

Laufey Guðjónsdóttir, KMÍ, meðstjórnandi

Silja Hauksdóttir, SKL, meðstjórnandi

Anton Máni Svansson, SÍK, meðstjórnandi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.