Viðskipti innlent

Hætti strax notkun hættulegra barnaburðarpoka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Pokarnir frá Mini Monkey eru ekki taldir fullkomlega öruggir.
Pokarnir frá Mini Monkey eru ekki taldir fullkomlega öruggir. Neytendstofa
Aðstandendur netverslunarinnar Heimkaup.is hafa ákveðið að innkalla tvær gerðir af barnaburðarpokum. Um er að ræða poka frá framleiðandanum Mini Monkey; Sling Unlimited 4 in 1 og Sling Unlimited 7 in 1. Umræddir pokar eru taldir hættulegir þar sem þeir geta rifnað. Ekki hafa þó borist neinar tilkynningar um slys af þeirra völdum hér á landi.

Á vef Neytendastofu segir að við prófanir á pokunum hafi jafnframt komið í ljós að hætta sé á að börn detti úr pokunum og að festingar þeirra hafi ekki haldið. Samkvæmt merkingum eru burðarpokarnir ætlaðir mjög ungum börnum, en börn undir fjögurra mánaða verða að vera í burðarpoka sem er sérstaklega útbúinn með stuðning fyrir höfuð þeirra.

Heimkaup segist þegar hafa haft samband við kaupendur pokanna og boðið þeim endurgreiðslu. „Neytendastofa hvetur þá sem eiga umrædda barnaburðarpoka að hætta notkun þeirra strax,“ segir á vef stofnunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×