Sport

Goff kemur McVay til varnar: Stöndum allir við bakið á honum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sókn Rams var með 30 stig að meðaltali í leik í vetur. Hún skoraði 3 stig í nótt.
Sókn Rams var með 30 stig að meðaltali í leik í vetur. Hún skoraði 3 stig í nótt. vísir/getty
Leikstjórnandinn Jared Goff steig upp og kom þjálfara sínum Sean McVay til varnar eftir tap Los Angeles Rams fyrir New England Patriots í leiknum um Ofurskálina í nótt.

Patriots vann leikinn 13-3 og tryggði sér þar með sjötta meistaratitilinn í NFL deildinni.

McVay, sem er yngsti þjálfarinn til þess að koma liði í úrslitaleikinn sjálfann, sagði eftir tapið að þetta væri á hans ábyrgð, hann hafi ekki stillt upp í rétt kerfi og ekki gefið liðinu sínu tækifæri á því að vinna.

Aðal leikstjórnandi Rams sagðist ekki geta samþykkt að þetta væri allt á herðum McVay.

„Ég skil þjáningu hans, en að hann sé að segja þetta. Við værum ekki hér ef ekki væri fyrir hann,“ sagði Goff.

„Hann hefur gert svo mikið fyrir þetta félag, ég vona að hann viti það og viti að við stöndum allir á bakvið hann.“

Sókn Rams var ein sú besta í deildinni en náði sér alls ekki á strik gegn Patriots í nótt.

Goff er aðeins 24 ára gamall og var að spila í sínum fyrsta úrslitaleik.

„Það gerir þetta enn verra að sjá hversu vel vörnin okkar spilaði. Að spila svona vel varnarlega og við í sókninni náum ekki að gera okkar, það er sárt.“

„Þetta er erfiðasta tap ferilsins. Þetta er hræðilegt.“

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×