Innlent

Unglingapartý á Seltjarnarnesi fór úr böndunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan segist hafa þurft að bregðast við margvíslegum útköllum í nótt.
Lögreglan segist hafa þurft að bregðast við margvíslegum útköllum í nótt. Vísir/vilhelm
Lögreglan segist hafa haft í nógu að snúast í nótt. Því til sönnunnar bendir hún á í skeyti sínu til fjölmiðla í morgun að allar fangageymslur á Hverfisgötu og í Hafnarfirði séu fullar eftir nóttina.

Til að mynda voru fjórir einstaklingar handteknir á einu bretti. Þeir eru grunaðir um nytjastuld, vörslu fíkniefna og „fleiri brot,“ eins og það er orðað í orðsendingu lögreglunnar. Hópurinn var því fluttur í fangaklefa á Hverfisgötu þar sem þeir hafa fengið að verja nóttinni.

Þá segist lögreglan hafa þurft að bregðast við aðstoðarbeiðni á Seltjarnarnesi. Þar höfðu nágrannar kvartað undan því sem lögregla lýsir sem „partý sem hafði farið úr böndunum.“ Þegar lögreglumenn mættu á svæðið hófust þeir handa við að aðstoða við að vísa unglingum úr teitinu. Ekki fylgir sögunni hvort einhver hafi verið handtekinn vegna málsins eða hvort einhverjar skemmdir hafi hlotist af skemmtanahaldinu.

Eins og oft vill gerast aðfaranætur laugardags var mikil ölvun í borginni. Fjölmargir þurftu aðstoð eftir að hafa farið of geyst í vímuefnaneyslu sinni á meðan aðrir komust í kast við lögin. Til að mynda lenti leigubílstjóri í vandræðum þegar farþegi hans gat ekki gert nokkra grein fyrir sér vegna vímu. Því var hann fluttur í fangaklefa. Auk þess voru nokkrir ökumenn stöðvaðir undir áhrifum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×