Viðskipti innlent

Beðið með sölu á lúxusíbúðum

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur.
Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm
Ekki hefur verið ákveðið hvenær lúxusíbúðir í þremur blokkum á Hafnartorgi sem ÞG Verk byggir verða settar formlega í sölu. Þorvaldur Gissurarson, forstjóri fyrirtækisins, segir að það fari eftir markaðsaðstæðum hvenær sala hefjist. Kjarasamningar séu lausir og fasteignamarkaðurinn sé í biðstöðu. „Það er ekki óeðlilegt miðað við þá óvissu sem er til staðar,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

ÞG Verk hafði áður sett lúxusíbúðir í tveimur húsum á Hafnartorginu sem eru nær Lækjargötu til sölu. Samkvæmt söluvef Hafnartorgs eru tíu íbúðir seldar. Fram kom í frétt í Morgunblaðinu í september að sex íbúðir hefðu verið seldar. 



Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verk.
„Það mjatlast út,“ segir Þorvaldur. Að hans sögn eru 30 íbúðir í húsunum sem eru til sölu. Samkvæmt söluvefnum eru samanlagt 76 íbúðir á Hafnartorginu.

Blokkirnar eru tilbúnar að utan. Reiknað er með að aðrar íbúðir en þær sem eru á efstu hæð verði fullbúnar eftir um tvo mánuði. Efstu hæðirnar eru tilbúnar undir tréverk og boðið upp á að kaupendur geti valið frágang.

Þorvaldur segir að verkefnið kosti um 13-14 milljarða króna. Um það bil helmingur fjárhæðarinnar sé lánsfé frá Landsbankanum. „Eins lengi og þarf á að halda,“ svarar Þorvaldur spurður hve lengi fyrirtækið geti beðið með að selja eignirnar á meðan markaðsaðstæður eru krefjandi.

„Ég hef engar áhyggjur af Hafnartorgi. Það er ekkert óeðlilegt að svona verkefni taki lengri tíma í markaðssetningu og sölu en hefðbundið húsnæði. Það kemur ekki á óvart. Þetta er allt önnur vara sem verið að bjóða en annars staðar,“ segir hann og nefnir að það hafi verið reyndin í velheppnaðri uppbyggingu við Akerbryggju í Ósló. „Ég hef fulla trú á að Hafnartorg, verslun, skrifstofur og íbúðir eigi eftir að slá í gegn þegar fram líða stundir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×