Viðskipti erlent

Norwegian aflar sér ríflega 40 milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Rekstrartap Norwegian var 53 milljarðar króna í fyrra.
Rekstrartap Norwegian var 53 milljarðar króna í fyrra. Vísir/Getty
Forsvarsmenn Norwegian Air Shuttle tilkynntu í gær að til stæði að auka hlutafé flugfélagsins um þrjá milljarða norskra króna, jafnvirði um 42 milljarða íslenskra króna, til þess að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag félagsins. Um leið greindu þeir frá því að rekstrartap norska flugfélagsins hefði numið ríflega 3,8 milljörðum norskra króna, um 53 milljörðum króna, á síðasta ári.

Í tilkynningu frá stjórn Norweg­ian var tekið fram að hún ætti ekki í viðræðum við neina mögulega kaupendur eftir að IAG, móðurfélag British Airways, sagðist í liðinni viku ekki ætla að gera yfirtökutilboð í félagið. Stjórnin væri hins vegar reiðubúin til þess að ræða við áhugasama fjárfesta.

Hlutabréf í norska flugfélaginu hríðféllu um þriðjung í verði þegar hlutabréfamarkaðurinn í Ósló var opnaður í gærmorgun en lækkunin gekk að hluta til baka eftir því sem leið á daginn og nam um 12 prósentum um miðjan dag.

Hlutabréfin lækkuðu sem kunnugt er um liðlega fimmtung í verði í síðustu viku í kjölfar þess að IAG sagðist hafa fallið frá yfirtöku­áformum sínum og selt hlut sinn í Norwegian.

Milljarðamæringurinn John Frederiksen, Björn Kjos, forstjóri Norwegian, og Björn Kise, stjórnarformaður flugfélagsins, hafa skuldbundið sig til þess að taka þátt í fyrir­huguðu forkaupsréttarútboði, að því er fram kemur í frétt Financ­ial Times.

Björn Kjos sagði í samtali við norska fjölmiðla í gær að félagið ætlaði nú að leggja áherslu á arðsemi í stað vaxtar með því að selja frá sér flugvélar, fresta móttöku nýrra flugvéla og ná að öðru leyti fram sparnaði upp á allt að tveimur milljörðum norskra króna. – kij


Tengdar fréttir

Vonbrigði með Norwegian

Sætanýting norska flugfélagsins hefur ekki verið lakari í meira en fjögur ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×