Erlent

Ríkisstjórn Búrkína Fasó fer frá í heild sinni

Atli Ísleifsson skrifar
Paul Kaba Thieba tók við embætti forsætisráðherra árið 2016.
Paul Kaba Thieba tók við embætti forsætisráðherra árið 2016. Getty
Paul Kaba Thieba, forsætisráðherra Afríkuríkisins Búrkína Fasó, hefur sagt af sér ásamt ríkisstjórninni allri. Engin ástæða var gefin fyrir afsögninni, en það var forseti landsins sem greindi íbúum landsins frá málinu í sjónvarpsávarpi í gær.

Thieba, sem er hagfræðingur að mennt, hefur gegnt forsætisráðherraembættinu frá í janúar 2016. Forseti landsins, Roch Marc Christian Kabore, tilnefndi Thieba á sínum tíma.

Ríkisstjórn Thieba hefur verið undir miklum þrýstingi vegna fjölgunar mannrána og árásum íslamista í landinu að undanförnu.

Mannrán

Andstæðingar stjórnarinnar hafa kallað eftir afsögnum Thieba, auk ráðherrum varnarmála og innanríkismála, sér í lagi eftir að fjöldi erlendra ríkisborgara hefur horfið sporlaust í landinu.

Í hópi þeirra eru meðal annars 34 ára kanadísk kona, Edith Blais, og þrítugur Ítali, Luca Tacchetto, sem hurfu í landinu um miðjan síðasta mánuð. Þau voru hjálparstarfsmenn á leið til Tógó.

Í ávarpi sínu þakkaði Kabore ráðherrum ríkisstjórnarinnar fyrir þeirra störf, en sagðist vona að ný stjórn verði skipuð innan skamms.

Luca Tacchetto og Edith Blais.Facebook



Fleiri fréttir

Sjá meira


×