Innlent

Senda tillitslausum ökumönnum tóninn eftir að ekið var á lögreglubíl á slysstað

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá vettvangi slyssins í morgun.
Frá vettvangi slyssins í morgun. Lögreglan á Suðurnesjum
Lögreglumönnum á Suðurnesjum varð verulega brugðið vegna tillitsleysis ökumanna í þeirra garð á vettvangi slyss á Strandarheiði í morgun. 

Þar hafði bifreið farið út af veginum en Reykjanesbrautin liggur yfir Strandarheiði og segir lögreglan mikla hálku hafa verið á veginum í morgun. Hámarkshraði á Reykjanesbrautinni við bestu aðstæður eru 90 kílómetrar á klukkustund en lögreglan segir aðstæður í morgun hafa verið langt frá besta móti. 

Bíllinn sem hafnaði á lögreglubílnum.Lögreglan á Suðurnesjum.
„Lögreglumenn á vettvangi töluðu um að ökumenn sem óku á hægri akreininni hafi ekki svo mikið sem hægt á sér við vettvanginn og sagði einn lögreglumaður sem var á vettvangi við kollega sinn að þetta myndi ekki enda vel,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Sú varð raunin en fimm mínútum eftir að lögreglumaðurinn hafði látið þessa orð falla var ekið aftan á lögreglubifreiðina með þeim afleiðingum að lögreglubifreiðin er talsvert skemmd og hin bifreiðin að öllum líkindum ónýt.

 

Skemmdir á lögreglubílnum eftir áreksturinn.Lögreglan á Suðurnesjum
„En það versta að okkar menn og ökumaður hins bílsins finna til eymsla eftir óhappið. Það er einlæg ósk okkar að ökumenn sýni tillitssemi í kringum slysavettvanga og dragi verulega úr hraðanum er þeir nálgast vettvanginn til að koma í veg fyrir frekari slys. Förum varlega í umferðinni, ökum miðað við aðstæður og sýnum hvoru öðru tillitssemi,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×