Erlent

Ný ríkisstjórn Löfvens kynnt til sögunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefan Löfven kynnir ríkisstjórn sína í þinghúsinu í Stokkhólmi í morgun.
Stefan Löfven kynnir ríkisstjórn sína í þinghúsinu í Stokkhólmi í morgun. EPA/JESSICA GOW
Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Jafnaðarmannaflokksins tilkynnti í dag um skipan nýrrar ríkisstjórnar sinnar. Sex nýir ráðherrar taka sæti í stjórninni.

Þá ber helst að nefna að Margot Wallström úr Jafnaðarmannaflokki verður áfram utanríkisráðherra og Magdalena Andersson einnig úr Jafnaðarmannaflokki verður áfram fjármálaráðherra. Isabella Löfvin, annar leiðtogi Græningja, verður aðstoðarforsætisráðherra auk þess sem hún hefur verið skipuð umhverfisráðherra.

Eins og áður segir eru sex nýir ráðherrar í ríkisstjórn Löfvens. Fjórir þeirra eru úr Jafnaðarmannaflokki, þau Hans Dahlgren, Anders Ygeman, Matilda Ernkrans og Jennie Nilsson. Úr Græningjum koma nýjar inn í ríkisstjórn Åsa Lindhagen og Amanda Lind.

Alls eru átján ráðherrar í nýju ríkisstjórninni úr Jafnaðarmannaflokknum, að Löfven meðtöldum, en fimm úr röðum Græningja. Þá eru tólf konur í ríkisstjórninni en ellefu karlar. Á vef sænska dagblaðsins Aftonbladet má nálgast lista yfir nýja ráðherraskipan.

Kosningar fóru fram í Svíþjóð 9. september síðastliðinn og gekk afar erfiðlega að mynda nýja stjórn. Í síðustu viku samþykkti sænska þingið Löfven sem nýjan forsætisráðherra og leiðir hann stjórn Jafnaðarmanna og Græningja. Þingmenn Miðflokksins, Frjálslyndra og Vinstriflokksins verja stjórnina falli. Vinstriflokkurinn á þó ekki formlega aðild að stjórnarsamstarfinu.


Tengdar fréttir

Leiðin greið fyrir nýja stjórn Löfven

Þingmenn sænska Vinstriflokksins munu skila auðu í atkvæðagreiðslu um Stefan Löfven, formanni Jafnaðarmanna, sem næsta forsætisráðherra Svíþjóðar.

Sænska þingið samþykkti Stefan Löfven

Stefan Löfven mun leiða minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja, og munu þingmenn Miðflokksins, Frjálslyndra og Vinstriflokksins verja stjórnina falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×