Skoðun

Brjálað að gera

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
„Við sjáumst svo á skurðstofunni í fyrramálið. Ef þú ætlar að læra þarftu að mæta alla aðgerðardaga – líka eftir sólahringsvakt,“ sagði fyrrverandi yfirmaður minn ákveðinn.

Það hefur lengi loðað við læknastéttina að menn lifi til að vinna frekar en vinni til að lifa. Þeir læknar sem ég þekki hafa allir haft mikla ástríðu fyrir starfi sínu. Það kom því á óvart þegar nýleg könnun sýndi að annar hver læknir er við það að gefast upp á starfinu.

Kulnun er fyrirbæri sem teygir anga sína í öll störf og stéttir samfélagsins. Henni var fyrst lýst árið 1974 af sálfræðingnum Herbert Freudenberger. Herbert lýsti kulnun sem andlegri og líkamlegri örmögnun sem á rót að rekja til vinnuaðstæðna. Kulnun hefur verið talsvert rannsökuð og ljóst hvaða þættir ýta undir hana þó enn eigi eftir að kortleggja betur fyrirbærið. Sérfræðingar eru þó sammála um að í grunninn er það kerfið sem bregst – ekki einstaklingurinn.

Fyrir ári síðan var fjallað um íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem stytti vinnudaginn úr átta í sex tíma án þess að skerða laun. Starfsfólk fékk fleiri gæðastundir með fjölskyldunni og tíma fyrir sjálft sig. Hamingja þess jókst, veikindadögum fækkaði og afköst á vinnutíma urðu meiri. Vinnustundum fækkaði en tekjur fyrirtækisins jukust.

Þetta er bara eitt dæmi en sýnir að það er hægt að snúa þessari þróun við. Stjórnendur vinnustaða ganga á undan með góðu eða slæmu fordæmi. Sem starfsmenn getum við gert ýmislegt til að þola betur vinnuálag en viðhorf okkar til vinnu ræður líka miklu. Er til dæmis alltaf „brjálað að gera“ eða áttu líka tíma til að rækta sjálfan þig?




Skoðun

Sjá meira


×