Innlent

Atli Rafn krefst 13 milljóna frá Borgarleikhúsinu

Jakob Bjarnar og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Atli Rafn Sigurðarson segist áður hafa getað valið úr verkefnum. Nú leiti enginn til hans.
Atli Rafn Sigurðarson segist áður hafa getað valið úr verkefnum. Nú leiti enginn til hans. Vísir
Atli Rafn Sigurðarson stefnir Kristínu Eysteinsdóttur leikhússstjóra Borgarleikhússins og Leikfélagi Reykjavíkur og fer fram á að honum verði dæmdar 10 milljónir í skaðabætur og 3 milljónir króna í miskabætur með dráttarvöxtum frá 16. desember 2017 til greiðsludags. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

Ástæða stefnunnar er þekkt. Vísir fjallaði ítarlega um málið þegar Atla Rafni var sagt upp störfum í desember í fyrra þegar rúm vika var í frumsýningu Medeu, hvar Atli Rafn átti að fara með hlutverk Jasonar; ein helsta sýning LR þess leikárs. Málið vakti mikla athygli og ólgu innan leikhúsheimsins.

Atli var á þeim tíma í ársleyfi frá samningi sínum við Þjóðleikhúsið til að taka að sér ýmis hlutverk á sviði Borgarleikhússins.

Atla Rafn segir Krónuna hafa sagt sér upp sem rödd verslunarkeðjunnar eftir að málið kom upp.Vísir/Ernir

Engar upplýsingar um ásakanirnar

Í stefnu Atla Rafns, sem Vísir hefur undir höndum, segir frá því að Atli Rafn hafi 16. desember 2017 verið boðaður á fund Kristínar en auk þeirra sat fundinn Berglind Ólafsdóttir þá framkvæmdastjóri Borgarleikhússins. Atli Rafn segist ekki hafa vitað um efni fundarins en þar var honum afhent uppsagnarbréf á ráðningasamningi hans við LR.

Á fundinum hafi verið sagt að komið hefðu fram ásakanir á hendur Atla Rafni um kynferðislega áreitni, þær ekki frekar skýrðar nema að þær tengdust umræðu í samfélaginu sem kennd hefur verið við Me too. Uppsögnin tæki þegar gildi og yrði Atla greidd laun til næstu þriggja mánaða.

„Engar upplýsingar voru veittar stefnda um það frá hverjum ásakanirnar væru komnar, hvers eðlis þær væru eða frá hve mörgum þær kæmu, frá hvaða tíma eða annað það  sem mögulega gæti að einhverju leyti varpað ljósi á þær og sett í samhengi fyrir stefnanda,“ segir í stefnu.

548 konur deildu reynslusögum sínum af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun innan sviðslista- og kvikmyndageirans á Íslandi í lokuðum Facebook-hóp.Vísir

Atli Rafn kom algerlega af fjöllum

Í stefnunni segir að Atli Rafn hafi komið algerlega af fjöllum á fundinum og ekki vitað sitt rjúkandi ráð. „Hann vissi hvorki þá, né veit í dag, til þess að hann hafi áreitt neinn aðila, hvorki kynferðislega né með öðrum hætti, hvorki þá nýverið né í fyrri tíð. Hann vissi ekki til þess að hafa verið andlag neinna „Me too“ sagna að undanskilinni einni, sem lýtur að upplifun leikkonu á samskiptum við stefnanda, sem hann upplifði ekki með sama hætti. Óumdeilt er í málinu að sú saga var ekki aflvaki uppsagnarinnar.“

Í því tilfelli væri upplifun hans af atburðum önnur en „síðari tíma upplifun“ viðkomandi af atvikinu. Atli Rafn segist deila upplifun sinni af atvikinu með þeim sem komið hafi að gerð kvikmyndar nokkurrar og stýrt á tökustað.

Þar séu meðtaldir leikstjóri, tökumaður og annarra á setti í tökunni. Upplifun viðkomandi af atvikinu sé að því er best sé vitað hennar einnar og ekki í samræmi við óklippar upptökur af senunni, segir í stefnunni.

Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar sem skoðaði málið og komst að afgerandi niðurstöðu varðandi meðhöndlun persónuupplýsinga.VÍSIR/VILHELM

Persónuvernd og Vinnueftirlitið skoðuðu málið

Þar er einnig rakið hvernig Atli Rafn leitaði skýringa en án árangurs, bæði með formlegum hætti sem og óformlegum. Þar er sagt að svör LR hafi verið óboðleg með öllu og „í samskiptum hafi stefndu reynt að gera eins lítið úr stefnda og hans málstað eins og hægt var. Tekið skal fram að stefndi hefur aftur hafið störf í Þjóðleikhúsinu, þar sem enginn hefur gert neina athugasemd við framgöngu hans eða hátterni, þrátt fyrir að þar hafi stefnandi starfað nánast samfleytt allan sinn feril.“

Einnig kemur fram að Atli Rafn hafi kært leikhúsið til Persónuverndar og Vinnueftirlitsins. Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að vinnsla LR á persónuupplýsingum um Atla Rafn hafi samrýmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. LR hafi veitt Atla Rafni fullnægjandi upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga um hann hjá LR.

Vinnueftirlitið komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að LR hafi brugðist þeirri skyldu sinni að setja forvarnar- og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum í samræmi við reglugerðir.

Medea var jólasýning Borgarleikhússins í fyrra og þannig helsta sýning leikhússins leikársins 2017-2018.Borgarleikhúsið

Sex frásagnir af kynferðislegri áreitni

Í gögnum málsins, meðal annars úrskurði Vinnueftirlitsins, kemur fram að upphaflega hafi verið um að ræða fjórar frásagnir um kynferðislega áreitni Atla Rafns. Þær hafi síðar orðið sex. Að minnsta eitt tilvik hafi orðið eftir að stefnandi hóf störf hjá LR haustið 2017.

Ítrekað er í stefnunni að Atli Rafn hafi lagt talsvert á sig til að finna út hvað það var sem leiddi til brottrekstursins.

„Ekkert hefur komið í ljós sem tengir stefnanda við nein áreitnismál og enginn hefur stigið fram og borið hann sökum. Stefndu hafi sveipað málið algjörum leyndarhjúp gagnvart stefnanda í skjóli þess að réttur meintra brotaþola sé tryggður. Stefnandi er því engu nær um hvaða atvik réðu því að honum var sagt upp. Hann hefur því ekki fengið að njóta þeirra grundvallarréttinda að fá að tjá sig um ásakanir sem á hann voru bornar og hafa haft jafn miklar afleiðingar og raun er í þessu máli.“

Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri segir að sex frásagnir hafi borist á borð hennar um kynferðislega áreitni Atla Rafns.Vísir/Vilhelm

Þátttaka Kristínar í Metoo hugsanlegur aflvaki

„Ákvörðun stefndu LR og Kristínar um að víkja stefnda úr starfi hefur valdið honum gríðarlegu tjóni og álitshnekki í samfélaginu. Enginn vilji hefur verið til þess af hálfu stefndu að varpa neinu ljósi á málið, né hefur verið vilji til þess að ræða um bætur til handa stefnda. Er honum því nauðugur einn sá kostur að höfða dómsmál þetta.“

Í stefnu er leitað skýringa og því velt upp hvort verið geti að virkni Kristínar innan Me too-hóps kvenna í sviðslistum geti verið aflvaki uppsagnarinnar.

„Í færslu á Fésbókarsíðu hópsins 1. desember 2017 sagði stefna Kristín að „við“ (þ.e. LR) séum að búa til svokallað safe zone, þar sem boðið verður upp á viðtal við fagaðila utan hússins. LR muni ekki vita nöfn þeirra sem stíga fram og það verði trúnaðarmenn, sem hafi milligöngu. Í yfirlýsingu leikhússtjórans í sama Fésbókarhóp 29. nóvember 2017 kom fram að þar sem hún væri í ábyrgðarstöðu vildi hún segja í hópinn, sem hún kallar „samverkakonur“ að ávallt væri hægt að leita til hennar – hún standi með þeim eða eins og sagt var: „#égerhér“

Uppsagnarbréfið afdrifaríka.

Engin verkefni eftir brottreksturinn

Í stefnunni er útskýrt á hverju skaðabótakröfur Atla eru grundvallaðar. Sagt er að eftir að málið kom upp hafi Atli Rafn ekki fengið eitt einasta verkefni á sínu sviði, ef undan er skilið það að fastráðning hans við Þjóðleikhúsið stendur. Áður hafi hann getað valið úr verkefnum, segir í stefnunni. Því séu 10 milljónir hófleg krafa því gera megi ráð fyrir því að hann verði lengi að koma tekjuöflun sinni í samt lag, enda málið greipt í huga almennings.

„Enginn vafi er á því að tekjuöflunarhæfi leikara eins og stefnda er algjörlega háð ímynd og orðspori, sem í hans tilviki hefur beðið alvarlegan hnekki. Það hefur haft bein áhrif á þau verkefni sem hann sinnti á þeirri stundu, sem honum var sagt upp störfum og gert það að verkjum að tekjuöflunarhæfi hans er verulega skert.“

Bent er á að Atli Rafn hafi misst starf sitt við lestur auglýsinga fyrir Krónuna og rýrnuðu þá tekjur Atla Rafns um 150 þúsund krónur má mánuði, sem meta megi margfölduð með tveimur eða þremur árum á bilinu 3,6 til 5,4 milljónir króna.

Eggert Benedikt, formaður stjórnar LR, vildi ekki tjá sig um málið á þessu stigi.

Segist niðurlægður á opinberum vettvangi

Í kaflanum þar sem gerð er grein fyrir miskabótakröfunni er sagt að Kristínu hafi mátt vera það ljóst að ákvörðun hennar, „sem var óréttlætanleg“, hafi verið til þess fallin að vera meiðandi fyrir Atla Rafn. Engin rannsókn hafi legið til grundvallar uppsögninni sem hafi falið í sér alvarlegar aðdróttanir um refsiverða eða í það minnsta siðferðilega ámælisverða háttsemi.

„Með ákvörðuninni var vegið að æru stefnda og persónu. Háttsemi stefndu Kristínar fól í sér að stefnda var sýnd lítilsvirðing, hann niðurlægður á opinberum vettvangi og vegið að æru hans.“

Þá er það tilgreint í stefnunni að uppsögnin hafi valdið Atla Rafni andlegri vanlíðan og haft veruleg áhrif á líf hans og hans nánustu. Atli Rafn vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Sömu sögu var að segja um Eggert Benedikt Guðmundsson, formann stjórnar LR. 

Í yfirlýsingu sem barst frá Leikfélagi Reykjavíkur stundarfjórðungi eftir að fréttin var birt segir vegna fyrirspurnar um málefni fyrrum starfsmanns Leikfélags Reykjavíkur:

„Leikfélag Reykjavíkur vill fara varlega í að tjá sig um einkamálefni fyrrverandi starfsmanns en virðir að sjálfsögðu rétt hans, líkt og annarra í hans stöðu, til að setja mál sín í þennan farveg. Tekið var á málinu á þann hátt sem stjórnendur Leikfélags Reykjavíkur töldu, og telja enn hafa verið, það eina rétta í stöðunni. Mun lögmaður félagsins rökstyðja þá afstöðu í greinargerð og fyrir dómi. Virðingarfyllst, Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur.“

Málið verður sem fyrr segir þingfest í héraðsdómi á morgun. Í framhaldinu má reikna með einhverjum vikum sem báðir aðilar hafa til að skila greinargerðum. Líklegt má telja að málið verði svo flutt öðru hvorum megin við sumarfrí dómstólanna.

Fréttin var uppfærð klukkan 12:03 eftir að yfirlýsing Leikfélags Reykjavíkur barst. Hana má sjá í heild að neðan.



Vegna fyrirspurnar um málefni fyrrum starfsmanns Leikfélags Reykjavíkur:

Leikfélag Reykjavíkur vill fara varlega í að tjá sig um einkamálefni fyrrverandi starfsmanns en virðir að sjálfsögðu rétt hans, líkt og annarra í hans stöðu, til að setja mál sín í þennan farveg. Tekið var á málinu á þann hátt sem stjórnendur Leikfélags Reykjavíkur töldu, og telja enn hafa verið, það eina rétta í stöðunni. Mun lögmaður félagsins rökstyðja þá afstöðu í greinargerð og fyrir dómi.


Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að vinnsla LR á persónuupplýsingum um stefnanda hafi samrýmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og að LR hafi veitt stefnanda fullnægjandi upplýsingar.

Virðingarfyllst,

Kristín Eysteinsdóttir


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×