Erlent

„Þeir eru að drepa okkur“

Andri Eysteinsson skrifar
Þeir eru að drepa okkur stendur á skilti þessa mótmælanda á Spáni.
Þeir eru að drepa okkur stendur á skilti þessa mótmælanda á Spáni. EPA/ J.M. Garcia
Morðin á lögfræðingnum Rebecu Santamalia í gær og kennaranum Lauru Luelmo í desember hafa vakið upp heitar umræður um heimilisofbeldi á Spáni.

Forsætisráðherrann spænski, Pedro Sanchez, hefur ásamt fleiri stjórnmálamönnum heitið því að taka á heimilisofbeldi gegn konum í landinu. BBC greinir frá.

Santamalia fannst í gær látin á heimili Jose Javier Salvador, dæmds morðingja sem hún hafði varið árið 2003. Salvador var það ár dæmdur fyrir morðið á eiginkonu sinni, Patriciu Conte, en hann skaut hana til bana. Salvador hafði verið sleppt úr fangelsi árið 2017 og höfðu þau Santamalia átt í ástarsambandi síðan.

Eiginmaður Santamalia hafði lýst eftir henni og við leitina fann lögregla lík hennar. Nokkrum tímum áður en lík Santamalia fannst hafði Salvador svipt sig lífi með því að stökkva fram af brú í bænum Teruel, 150 km frá heimili hans í Zaragoza.



Kynbundið ofbeldi gagnrýnt í kjölfar morðanna

26 ára gamall kennari, Laura Luelmo, var í desember myrt nærri heimili hennar í Andalúsíu héraði. Luelmo hafði farið út að skokka en skilaði sér aldrei heim. Eftir fimm daga leit fannst lík hennar, hálfnakið. Nágranni Luelmo, hinn fimmtíu ára gamli Bernardo Montoya steig fram og játaði að hafa orðið Luelmo að bana. Montoya var líkt og Salvador dæmdur kvennamorðingi en hann hafði áður myrt konu árið 1995.

Málin hafa vakið óhug á Spáni og hafa fjölmargir stjórnmálamenn gagnrýnt harðlega kynbundið ofbeldi sem hefur fengið að grassera í landinu. Sunnarlega á Spáni, í héraðinu Andalúsíu, hefur þó nýr flokkur á héraðsþinginu, Vox, barist gegn breytingum á heimilisofbeldislöggjöf.

Vox sem hefur einnig barist gegn innflytjendum og réttindum samkynhneigðra hafa oft á tíðum gagnrýnt „öfgafulla“ og „herskáa“ feminista og staðið gegn breytingum á heimilisofbeldislöggjöf þar sem að þeim þykja lögin of hliðholl konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×