Erlent

Tómur tengivagn talinn orsök lestarslyssins

Kjartan Kjartansson skrifar
Flutningalestin var að flytja tómar bjórflöskur.
Flutningalestin var að flytja tómar bjórflöskur. Vísir/EPA
Vísbendingar eru um að tómur tengivagn flutningsbíls hafi fokið af flutningalest og valdið dauða sex manns og slasað sextán til viðbótar í lestarslysinu á Stórabeltisbrúnni í Danmörku í morgun. Óveður hefur geisað í Danmörku og víðar á Norðurlöndum í nótt og í dag.

Slysið átti sér stað þegar brak úr flutningalest rakst á hraðlest sem kom úr gagnstæðri átt um klukkan hálf átta í morgun. Fólkið sem lést var farþegar í hraðlestinni. Stórabeltisbrúin tengir Sjáland og Fjón og er ein fjölfarnasta samgönguæð Danmerkur. Farþegalestin var á leið frá Óðinsvéum til Kaupmannahafnar.

Bo Haaning frá rannsóknarnefnd samgönguslysa segir danska ríkisútvarpinu að tómur tengivagn hafi oltið eða blásið um koll. Hann hafi annað hvort rekist á farþegalestina eða hún ekið á vagninn. Ekki sé þó fullljóst hvort að tengivagninn hafi valdið slysinu eða aðrir hlutar flutningalestarinnar. Þá sé ekki ljóst hvers vegna tengivagninn datt af lestinni. Rannsóknin sé enn á frumstigi.

Farþegar sem voru um borð hafa lýst því að rúður hafi brotnað í farþegalestinni og hún hafi snarhemlað. Lögreglu- og leitarlið er nú sagt leita að svonefndum svörtum kassa farþegalestarinnar sem gæti varpað ljósi á hvernig slysið bar til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×