Innlent

Hætta skapaðist við ráðhúsið í Þorlákshöfn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lítið sem ekkert er eftir af ruslatunnunni.
Lítið sem ekkert er eftir af ruslatunnunni. Mynd/Brunavarnir Árnessýslu.
Eldur kom upp í ruslatunni við ráðhús Ölfuss í Þorlákshöfn rétt fyrir klukkan eitt í dag. Hætta var á að eldurinn næði að læsa sér í húsið.

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn brugðust við útkallinu og slökktu eldinn en áður höfðu starfsmenn sveitarfélagsins og vegfarandi slegið verulega á eldinn með fimm slökkvitækjum, að því er segir í færslu á Facebook-síðu Brunvarna Árnessýslu.

Ruslatunnan stóð upp við bygginguna rétt fyrir neðan glugga þannig að talsverð hætta var á að eldur næði að læsa sér í húsið ef til þess kæmi að glerið springi vegna hita.

Einhver reykur komst inn í bygginguna sem slökkviliðsmenn ræstu með reykblásurum slökkviliðsins. Talið er að kviknað hafi í af mannavöldum en lögreglan á Suðurlandi sér um rannsókn málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×