Innlent

Fara á spítala á Bretlandi á morgun

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins 27. desember
Frá vettvangi slyssins 27. desember Adolf Ingi
Fólkið sem slasaðist í banaslysinu á brúnni yfir Núpsvötn er ferðafært og heldur til síns heima í Bretlandi á morgun. Þar verða þau öll lögð inn á sjúkrahús þó áverkar þeirra séu mis alvarlegir.

Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Þeir sem halda út eru ökumaður bílsins og bróðir hans ásamt tveimur börnum.

Tvær konur og ellefu mánaða gömul stúlka létust í slysinu 27. desember þegar Toyota Land cruiser-jeppi þeirra fór fram af brúnni. Bráðabirgðaniðurstöður krufninga liggja nú fyrir en Oddur segir þær ekki útskýra tildrög slyssins með neinum hætti.

Ökumaðurinn nýtur réttarstöðu sakbornings en ekki var gerð krafa um að hann sæti farbanni vegna rannsóknar og dómsmeðferðar málsins. 

Oddur segir rannsókn málsins í vinnslu og er niðurstaðna ekki að vænta fyrr en eftir einhverjar vikur. Rannsókn lögreglu á jeppanum er á lokametrunum en að sögn Odds verður ekkert gefið út um einstaka þætti rannsóknarinnar fyrr en henni er að fullu lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×