Viðskipti innlent

Leggja Oculis til 1,9 milljarða króna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Lyfjaþróunarfyrirtækið Oculis hefur þróað augndropa sem koma í stað augnástungu við meðferð sjúkdóma í augunum.
Lyfjaþróunarfyrirtækið Oculis hefur þróað augndropa sem koma í stað augnástungu við meðferð sjúkdóma í augunum. Ljósmynd/Oculis
Lyfjaþróunarfyrirtækið Oculis, sem hefur þróað tækni við meðhöndlun augnsjúkdóma og á rætur að rekja til Háskóla Íslands og Landspítalans, hefur samið við fjárfesta um fjármögnun upp á 15,5 milljónir svissneskra franka eða sem jafngildir tæplega 1,9 milljörðum króna.

Fjármögnunin var leidd af fjárfestingafélaginu Tekla Capital Management í Boston en auk félagsins lögðu félagið Nan Fung Life Sciences, sem er hluti af kínversku samstæðunni Nan Fung Group, og fyrri hluthafar Oculis lyfjaþróunarfyrirtækinu til fé.

Félögin Tekla Capital Management og Nan Fung Life Sciences koma ný inn í hluthafahóp Oculis og tekur Henry Skinner, framkvæmdastjóri hjá fyrrnefnda félaginu, sæti í stjórn fyrirtækisins í stað Stefáns Jökuls Sveinssonar.

Fram kom í Markaðinum í janúar í fyrra að Oculis hefði samið við leiðandi alþjóðlega vaxtarsjóði, Bay City Capital, Novartis Venture Fund og Pivotal bio Venture Partners, ásamt Brunni vaxtarsjóði og Silfurbergi um jafnvirði 2,1 milljarðs króna hlutafjáraukningu. Oculis hefur þannig aflað sér samanlagt liðlega fjögurra milljarða króna í nýtt hlutafé á um það bil einu ári.

Samhliða hlutafjáraukningunni í byrjun síðasta árs var ákveðið að Oculis opnaði nýjar höfuðstöðvar í Lausanne í Sviss.

Oculis var stofnað árið 2003 af dr. Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum, og dr. Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði. Þeir leiða enn rannsóknir og nýsköpun fyrirtækisins. Starfsemi félagsins byggir á einkaleyfavarinni tækni sem gerir mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augn­dropum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×