Viðskipti innlent

Eina bygginga­vöru­verslun Mos­fells­bæjar lokar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bymos hefur undanfarin 16 ár verið til húsa í Háholti í Mosfellsbæ.
Bymos hefur undanfarin 16 ár verið til húsa í Háholti í Mosfellsbæ. Facebooksíða Bymos
Byggingavöruverslun Mosfellsbæjar verður skellt í lás um áramótin, 16 árum eftir að hún opnaði í Háholti.

Verslunin, Bymos, er sú eina í sveitarfélaginu sem hefur sérhæft sig í hvers kyns byggingavörum og segir Karl D. Björnsson, sem staðið hefur vaktina í Bymos í hálfan annan áratug, í samtali við Mosfelling að afkoma fyrirtækisins hafi á síðustu árum byggst á jólavertíðinni og bæjarhátíð Mosfellsbæjar - Í túninu heima, sem fram fer um miðjan ágúst.

Léleg verslun að undanförnu hafi þó riðið rekstrinum að fullu og segir Karl að Mosfellingar „mættu auðvitað vera duglegri við að versla í sinni heimabyggð.“ Heilsufarsástæður hafi þar að auki ekki auðveldað verslunarreksturinn. 

Bymos verði því formlega lokað þann 31. desember. Karl segir þó við Mosfelling að blásið verði til rýmingarsölu í upphafi janúar þar sem sveitungar hans munu eflaust geta gert góð kaup.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×