Viðskipti innlent

Fjórar þotur seldar til Air Canada

Atli Ísleifsson skrifar
Hópuppsagnir voru hjá WOW air fyrr í mánuðinum.
Hópuppsagnir voru hjá WOW air fyrr í mánuðinum. Vísir/Vilhelm
WOW air hefur selt fjórar Airbus flugvélar til flugfélagsins Air Canada. Í tilkynningu frá félaginu segir að sjóðstaða WOW muni batna um 12 milljónir Bandaríkjadala, um 1,4 milljarða íslenskra króna, með sölunni.

„Stjórn WOW air hefur samþykkt þessi viðskipti en þessi sala er hluti af endurskipulagningu félagsins en legið hefur fyrir að minnka þurfi flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðarsveiflu og hámarka arðsemi.

Um er að ræða Airbus A321 vélar sem WOW air hefur verið með á kaupleigu frá 2014. Vélarnar verða afhentar í janúar 2019,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW air, að þetta sé mjög jákvætt og mikilvægt skref í endurskipulagningu félagsins þar sem verið sé að minnka flotann og bæta lausafjárstöðu félagsins.

Hluti þeirrar hagræðingaraðgerða sem WOW boðaði í síðustu vikum, í tengslum við aðlögun félagsins að rekstrarlíkani Indigo Partners LLC, var flugvélafækkun. Til stendur að minnka flota flugfélagsins um helming, þannig að eftir munu standa 11 vélar.

Í lok síðasta mánaðar var auk þess greint frá því að WOW myndi losa sig við fjórar Airbus vélar, tvær Airbus A320 og tvær Airbus A330 - „vélar sem ekki hefðu nýst sem skildi í vetraráætlun WOW air,“ eins og það var orðað á sínum tíma. Um var að ræða tvær af minnstu vélum flotans og tvær af þeim stærstu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×