Fótbolti

Axel Óskar keyptur til Viking

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Axel Óskar Andrésson fer alfarið til Viking.
Axel Óskar Andrésson fer alfarið til Viking. mynd/vikingfk.no
Norska úrvalsdeildarfélagið Viking í Stavangri er búið að kaupa íslenska varnarmanninn Axel Óskar Andrésson frá Reading á Englandi en frá þessu greinir norska félagið á heimasíðu sinni.

Axel fór til Viking á láni í sumar og átti stóran þátt í því að koma liðinu úr B-deildinni og aftur upp í úrvalsdeildina þar sem að það spilar á næsta ári.

Þessi tvítugi tröllvaxni miðvörður á 37 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands en hann mun væntanlega spila sinn fyrsta A-landsleik í janúar þar sem að hann var valinn í A-hópinn sem fer til Katar í byrjun næsta árs og mætir þar Svíþjóð og Eistlandi.

Axel Óskar er uppalinn hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ þar sem að hann spilaði ellefu leiki í deild og bikar árið 2014 aðeins fjórtán ára gamall áður en hann var fenginn til Reading.

Miðvörðurinn öflugi var lánaður til Bath og Torquay í neðri deildum Englands og nú síðast til Viking þar sem að hann heillaði menn svo mikið að hann var keyptur til norska félagsins.

Rík hefð er fyrir Íslendingum hjá Viking en Indriði Sigurðsson er þar goðsögn í lifanda lífi sem og Birkir Bjarnason en fyrir nokkrum árum voru fimm leikmenn á mála hjá liðinu á sama tíma.

Það voru Jón Daði Böðvarsson, Sverrir Ingi Ingason, Steinþór Freyr Þorsteinsson, Björn Daníel Sverrisson og Indriði Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×