Erlent

Hafa hand­tekið tvo í tengslum við nektar­mynda­töku á Pýramídanum mikla

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem vakið hefur mikla athygli.
Skjáskot úr myndbandinu sem vakið hefur mikla athygli. Mynd/Skjáskot
Yfirvöld í Egyptalandi hafa handtekið tvo einstaklinga sem grunaðir eru um að hafa hjálpað til við nektarmyndatöku danska ljósmyndarans Andreas Hvid á toppi Pýramídans mikla.

Ljósmyndarinn er sagður hafa tekið nektarmyndir af sjálfum sér og konu á pýramídanum. Málið hefur vakið mikla athygli í Egyptalandi og er nú til rannsóknar hjá innanríkisráðuneyti landsins. Þá hafa margir Egyptar fordæmt athæfi ljósmyndarans.

 

Á vef Hvid má sjá mynd þar sem hann liggur ofan á konu og eru þau bæði nakin. Í bakgrunni er einn af pýramídunum og sjálf virðast þau einnig liggja ofan á pýramída.

Myndband sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum sýnir einnig hvernig Hvid og konan klifra upp á bygginguna en í því sést konan  meðal annars klæða sig úr að ofan.

Sagði athæfið vanvirðingu við siðferði almennings

Ráðuneytið hefur nú tilkynnt að yfirvöld hafi handtekið konu og mann sem eru grunuð um að hafa hjálpað ljósmyndaranum við að hrinda myndatökunni í framkvæmd.

Annars vegar er um að ræða mann sem á að hafa aðstoðað parið við að klífa upp á pýramídann og hins vegar konu sem á að hafa komið parinu í samband við þann mann.

Ráðherra fornminja, Khaled al-Anani, lýsti myndatökunni sem vanvirðingu við siðferði almennings áður en hann vísaði málinu til ríkissaksóknara landsins.

Þá fordæmdi hann myndirnar í ræðu á þinginu og sagði efnið vera klám auk þess sem hann lagði áherslu á það að klifra pýramídana væri ólöglegt.

Yfirvöld rannsaka einnig hvort að myndin sem birst hefur af parinu sé fölsuð þar sem margir setja spurningamerki við það að fólkinu hafi tekist að komast fram hjá öryggisvörðum við pýramídana.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×