Erlent

Vígahnöttur kom fram á jarðskjálftamælum á Grænlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Vígahnettir eru glóandi loftsteinar sem splundrast þegar þeir falla í gegnum lofthjúp jarðar.
Vígahnettir eru glóandi loftsteinar sem splundrast þegar þeir falla í gegnum lofthjúp jarðar. Vísir/Getty
Jarðskjálftamælar á Grænlandi greindu höggbylgju frá glóandi loftsteini sem sprakk nærri Thule-herstöðinni í sumar. Athuganirnar geta hjálpað vísindamönnum að skilja hvernig loftsteinar hafa áhrif á jökla og íshnetti í sólkerfinu.

Loftsteininn sem sprakk yfir Grænlandi 25. júlí var annar stærsti vígahnöttur ársins, að því er kemur fram í frétt Space.com. Krafturinn jafnaðist á við 2,1 tonn af TNT-sprengiefni. Sagt var frá mælingunum á ársþingi Jarðeðlisfræðisambands Bandaríkjanna (AGU) í síðustu viku en niðurstöður þeirra hafa enn ekki verið gefnar formlega út.

Íbúar í bænum Qaanaaq á norðvesturströnd Grænlands sögðust hafa séð bjart ljós á himni og fundið jörðina titra um klukkan átta að kvöldi að staðartíma. Jarðskjálftamælar sem höfðu nýlega verið settir upp norður af bænum til að fylgjast með áhrifum jarðhræringa á Grænlandsjökul námu sprenginguna.

Vígahnötturinn var sem bjartastur í um 43 kílómetra hæð yfir jörðinni en þá var hann á um 87.000 kílómetra hraða á klukkustund. Talið er að hann hafi sprungið nærri Humboldt-jöklinum. Titringur frá sprengingunni kom fram á mælum allt að 350 kílómetrum þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×