Viðskipti innlent

Slaknar á spennu í þjóðarbúskapnum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Vísir/Vilhelm
Að mati fjármálastöðugleikaráðs er áhætta í fjármálakerfinu enn tiltölulega hófleg og hefur hún lítið breyst frá síðasta fundi ráðsins, en ráðið fundaði í dag í fimmta sinn á þessu ári.

„Áfram slaknar á spennu í þjóðarbúskapnum. Nú ríkir nokkur óvissa um framvinduna í ferðaþjónustu og áhrif kjarasamninga á efnahagslífið. Áfram er upptaktur í fjármálasveiflunni og skuldir vaxa nú hraðar en landsframleiðsla. Fasteignaverð hefur haldið áfram að hækka þótt dregið hafi nokkuð úr hækkun verðs á íbúðarhúsnæði. Innlendir flugrekendur hafa verið í mótvindi, en bein áhrif af mögulegu áfalli á fjármálakerfið eru talin takmörkuð,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þar segir að viðnámsþróttur viðskiptabankanna sé talsverður.

„Eiginfjárhlutföll þeirra eru nokkuð yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins og lausafjárstaða þeirra er vel yfir lágmarki samkvæmt reglum Seðlabankans. Þá er geta þjóðarbúsins til að takast á við áföll góð, m.a. vegna góðrar ytri stöðu, stórs gjaldeyrisforða og lágrar skuldastöðu hins opinbera og einkageirans. Svigrúm hagstjórnar til að mæta áföllum er einnig talsvert þar sem afgangur er á ríkissjóði, skuldir hins opinbera eru lágar í sögulegu samhengi og nafnvextir Seðlabankans töluvert frá núlli.“

Á fundinum var fjallað um hraða þróun fjártækni sem kallar á aukinn viðbúnað varðandi net- og upplýsingaöryggi. Einnig var rætt hvernig treysta megi sem best innlenda greiðslumiðlun í ljósi þeirrar þróunar sem væntanleg er. Samþykkt var að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að hækka sveiflujöfnunarauka um 0,25 prósentur, úr 1,75% í 2%. Hækkunin tekur gildi 12 mánuðum eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, fylgi stofnunin tilmælunum.

Á næsta ári mun fjármálastöðugleikaráð funda 1. apríl, 21. júní, 24. september og 17. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×