Erlent

Fjærhlið tunglsins heimsótt í fyrsta skipti

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjærhlið tunglsins snýr alltaf frá jörðinni. Þessa mynd tók bandaríska geimfarið Lunar Reconnaissance Orbiter af henni í október í fyrra.
Fjærhlið tunglsins snýr alltaf frá jörðinni. Þessa mynd tók bandaríska geimfarið Lunar Reconnaissance Orbiter af henni í október í fyrra. NASA/Goddard Space Flight Center/Arizona State University
Kínverska geimfarið Chang‘e 4 stefnir að því að verða það fyrsta til að lenda á fjærhlið tunglsins þegar því verður skotið á loft á morgun. Gangi allt að óskum á geimfarið og könnunarjeppi þess að lenda á suðurpóli tunglsins í byrjun næsta árs.

Markmið leiðangursins er að rannsaka yfirborðið og efnasamsetningu þess, meðal annars til þess að reyna að varpa ljósi á samsetningu skorpu og möttuls tunglsins. Líffræðilegar tilraunir verða um borð sem tugir kínverskra háskóla hafa átt þátt í að hanna.

Space.com segir að Chang‘e 4 sé einnig ætlað að gera athuganir á daufum útvarpsbylgjum. Fjærhlið tunglsins sé einn besti staðurinn fyrir slíkar rannsóknir. Hún snýr alltaf frá jörðinni og er því laus við truflanir frá jónahvolfi jarðar, útvarpssendingum manna og annarri geislun frá jörðinni.

Geimfarinu verður skotið á loft klukkan 18:30 að íslenskum tíma á morgun. Ferðalagið til tunglsins á að taka 27 daga. Þá lendir Chang‘e 4 í Von Kármán-gígnum í Suðurpólsdæld tunglsins. Kínverjar hafa þegar komið gervitungli á braut á milli jarðarinnar og tunglsins sem til hægt verði að hafa samskipti við geimfarið á fjærhliðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×