Innlent

Frammistöðuvandi ástæða uppsagnar Áslaugar Thelmu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Áslaug Thelma Einarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður hjá Orku náttúrunnar.
Áslaug Thelma Einarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður hjá Orku náttúrunnar.
Áslaugu Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni hjá Orku náttúrunnar, var sagt upp vegna frammistöðuvanda. Þetta hefur RÚV upp úr tölvupóstsamskiptum lögmanns hennar, Sigurðar G. Guðjónssonar, og Helgu Jónsdóttur, starfandi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, frá því í morgun. Þar er vitnað í kafla úr skýrslu Innri endurskoðunar sem enn hefur ekki verið birtur.

RÚV hefur eftir Sigurði í tölvupósti sem hann sendi Helgu að uppsögn Áslaugar Thelmu sé ólögmæt, og því varla réttmæt. Því sé Áslaug Thelma samkvæmt lögum enn starfsmaður ON en í einhvers konar leyfi.

Einnig telur Sigurður að skýrsla innri endurskoðunar staðfesti að ekki hafi verið brugðist við kvörtunum Áslaugar Thelmu vegna óviðeigandi hegðunar Bjarna Más Júlíussonar, þáverandi framkvæmdastjóra OR og yfirmanns Áslaugar Thelmu. Jafnframt hafi ekki farið fram úttekt í kjölfar kvörtunarinnar þar sem fagleg afstaða var tekin til efnis hennar.

Þá rekur Sigurður ákvæði 27. gr. jafnréttislaga, sem bannar uppsögn o.fl. vegna kæru eða leiðréttingarkröfu. Í svari sínu segir Helga að fjallað sé um 27. grein jafnréttislaga í skýrslu innri endurskoðunar. Í kafla um uppsögn Áslaugar Thelmu, sem ekki hefur verið birtur segi: „Á þeim grundvelli er það niðurstaða innri endurskoðunar að uppsögn vegna frammistöðuvanda hafi verið réttmæt.

Ekki náðist í Sigurð G. Guðjónsson, lögmann Áslaugar Thelmu, við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir

Ekki sammála um réttmæti uppsagnar

Skýrsla innri endurskoðunar um Orkuveitu Reykjavíkur var kynnt í gær. Stjórnarformaður og starfandi forstjóri OR sáttir við niðurstöðurnar.

Nafnlausar ásakanir og engar kærur komið fram gegn Þórði

Engar kærur um alvarlegt kynferðisofbeldi hafa borist gegn Þórði Ásmundssyni sem átti að taka við sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar (ON) eftir að Bjarna Má Júlíussyni var sagt upp sem störfum í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×