Erlent

Mynda röð á fjallstindi í von um hina fullkomnu mynd

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um það bil svona er útkoman sem fjallgöngumennirnir sækjast eftir.
Um það bil svona er útkoman sem fjallgöngumennirnir sækjast eftir. Getty/ARUTTHAPHON POOLSAWASD
Afar vinsælt er á meðal ferðalanga í Nýja-Sjálandi að ná mynd af sér á toppi Roys Peak fjallsins. Fjallstindurinn er hins vegar orðinn svo vinsæll að algengt er að ferðalangar þurfi að bíða uppi á topp eftir að röðin komi að þeim til að ná hinni fullkomnu mynd.

Það skal engan undra að fjallstindurinn sé vinsæll enda útsýni af honum með eindæmum. Því er er algengt að sjá myndir af ferðalöngum á tindinum þar sem það lítur út fyrir að þeir séu einir í heiminum.

Svo er þó ekki alltaf raunin líkt og myndirnar sem sjá má hér að neðan. Þær voru birtar á Redditþar sem sjá má að talsverð röð hefur myndast á fjallinu til að ná hinni fullkomnu mynd.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að fjöldi heimsókna á fjallstindinn hafi aukist um tólf prósent á tímabilinu 2016 til 2018. Þannig hafi 73 þúsund manns klifið tindinn á þessu tímabili. Talsmaður Náttúruverndarstofu Nýja-Sjálands segir að fjallstindurinn sé orðinn táknmynd Wanaka-héraðs Nýja-Sjálands sem megi að stórum hluta þakka samfélagsmiðlum.

Fjallstindurinn er í 1.578 metra hæð yfir sjávarmáli en í frétt BBC er vitnað í ummæli ferðalanga sem farið hafa á tindinn að undanförnu.

„Það var mjög mikið af fólki á tindinum að reyna að ná hinni fullkomnu mynd. Það var erfitt að ná mynd án þess að á henni væri fullt af ókunnugu fólki. Það var líka vandræðalegt að stilla sér upp á mynd fyrir framan svona mikið af fólki,“ skrifaði einnferðalangur á Tripadvisor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×