Viðskipti innlent

Starfsfólk WOW Air „jákvætt og bjartsýnt“ eftir fundinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air. Skjáskot/Stöð 2
Starfsfólk WOW Air sem mætti á starfsmannafund fyrirtækisins í Katrínartúni í morgun var jákvætt og bjartsýnt að fundi loknum, að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW Air. Hún segir rekstur félagsins tryggðan en ekki sé búið að taka ákvörðun um uppsagnir hjá félaginu.

Boðað var til starfsmannafundar WOW Air klukkan 10 þar sem starfsfólk var upplýst um stöðu mála en greint var frá því í morgun að Icelandair Group hafi fallið frá kaupum á félaginu. Svanhvít gat ekki gefið ítarlegar upplýsingar um það sem fram fór á fundinum en segir þó að hljóðið í starfsfólki hafi verið gott.

„Starfsfólkið er bara mjög jákvætt og bjartsýnt.“

Hún segir jafnframt að rekstur félagsins sé tryggður en starfsmönnum verða greidd laun nú um mánaðamótin, líkt og kom fram í tölvupósti fjármálastjóra til starfsfólks sem sendur var í gær.

Aðspurð segist Svanhvít ekki geta veitt frekari upplýsingar um mögulegar uppsagnir hjá WOW Air, utan þess sem haft hefur verið eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW Air, í morgun.

„Það er möguleiki en það er ekkert búið að taka ákvörðun um það.“


Tengdar fréttir

Skúli segist reikna með gleðifréttum í mjög náinni framtíð

Skúli Mogensen segir að það sé ekkert launungarmál að hans helsta markmið sé að WOW air verði áfram sjálfstætt flugfélag. Unnið sé að því og hann reikni með að geta fært starfsfólki WOW air gleðifréttir í mög náinni framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×