Fótbolti

Neitaði að láta sjá sig og skildi 1,8 milljarða eftir á borðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Le'Veon Bell.
Le'Veon Bell. Vísir/Getty
Le'Veon Bell er einn besti hlauparinn í NFL-deildinni en hann mun ekki spila eina einustu mínútu á þessu tímabilið þrátt fyrir að vera ómeiddur og á toppi síns ferils.

Le'Veon Bell hefur spilað frábærlega fyrir Pittsburgh Steelers frá árinu 2013 en annað árið í röð náði Bell og forráðamenn Pittsburgh ekki saman um nýjan samning.

Pittsburgh Steelers ákvað því að festa Bell annað árið í röð undir svokölluðu „franchise tag“ en hvert lið hefur leyfi til að gera slíkt.

Le'Veon Bell og Steelers voru búin að vera í samningarviðræðum en leikmanninum fannst ekki mikið til þeirra tilboða koma. Niðustaðan var að festa leikmanninn hjá liðinu í eitt ár til viðbótar.

Bell fékk þó engin sultarlaun í þessu „fangelsi“ en það kom þó í veg fyrir að hann kæmist út á markaðinn og gæti samið við annað félag.





Le'Veon Bell átti að fá 14,5 milljónir dollara fyrir tímabilið eða 1,8 milljarða íslenskra króna. Bell neitaði hinsvegar að láta sjá sig og í gær rann út lokafresturinn fyrir hann.

Bell skrópaði enn á ný og nú er ljóst að hann má ekki spila á þessu tímabili. Það er einnig ljóst að hann fær ekkert af þessum 1,8 milljörðum króna sem hann átti að fá fyrir tímabilið.





Le'Veon Bell mun leitast eftir nýjum samning eftir þetta tímabil og mörg félög munu örugglega bjóða honum gull og græna skóga. Hvort hann nái að vinna upp þetta milljarðatap sem hann varð fyrir á þessu tímabili er aftur á móti allt önnur saga.

Það fylgir sögunni að varamaður  Le'Veon Bell, James Conner, hefur átt frábært tímabili og Pittsburgh Steelers liðið er á miklu skriði. Það er því ekki eins og Pittsburgh Steelers sakni Bell mikið.

Conner er líka miklu ódýrari leikmaður en er að skila sömu ef ekki betri tölum það sem af er tímabilinu.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×