Viðskipti innlent

Meniga semur við þriðja stærsta banka Suðaustur-Asíu

Atli Ísleifsson skrifar
Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga.
Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga. Mynd/Meniga
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur gert samning við bankann United Overseas Bank (UOB) um að innleiða netbankalausnir Meniga í Singapore, Taílandi, Indónesíu, Víetnam og Malasíu. UOB er þriðji stærsti banki Suðaustur-Asíu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Meniga.

UOB er fyrsti viðskiptavinur Meniga í Asíu en bankinn er með yfir fimm hundruð útibú í nítján löndum. Meniga og UOB greindu frá samstarfinu á ráðstefnunni Singapore Fintech Festival.

Haft er eftir Georg Lúðvíkssyni, forstjóra og einum stofnanda Meinga, að samstarfið marki tímamót í sögu fyrirtækisins þar sem um sé að ræða fyrsta viðskiptavin þess í Asíu og einn stærsta samning sinnar tegundar á svæðinu.

„Við erum sérstaklega hrifin af þeim metnaði sem UOB hefur sett í að gera notendaupplifun sína persónulegri. Það má segja að bankar í Asíu séu virkilega að vakna til lífsins hvað varðar nýjungar í bankastarfsemi,“ segir Georg.

Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfs­menn fyrirtækisins nú um hundrað talsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×