Fótbolti

Rússar komu í veg fyrir drónaárásir á HM í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússar voru með mikla öryggisgæslu á HM í sumar.
Rússar voru með mikla öryggisgæslu á HM í sumar. Vísir/Getty

HM í fótbolta í Rússlandi síðasta sumar gekk eins og í sögu en þar var íslenska landsliðið í fyrsta sinn með í úrslitakeppni HM.

Framkvæmd keppninnar tókst frábærlega og íslenskir áhorfendur sem og aðrir fengu að lifa og njóta á ferðum sínum í Rússlandi.

Stuðningsmenn liðanna héldu líka friðinn á mótinu og ekkert fréttist af tilraunum hryðjuverkamanna til að minna á sinn málstað.  

Það var þó ekki allt sem sýnist því Rússar segjast hafa með fyrirbyggjandi aðgerðum og vakandi auga komið í veg fyrir drónaárásir á HM síðasta sumar.

Alexander Bortnikov, yfirmaður öryggissveitar rússneska ríkisins, segir frá þessu en Telegraph hefur það eftir honum.



Bortnikov segir að öryggissveitir sínar hafi uppgötvað og komið í veg fyrir drónaárásir hryðjuverkamanna á meðan heimsmeistaramótinu stóð.

Þúsundir lögreglumanna voru í fullri vinnu við eftirlitsstörf á mótinu og viðamikið eftirlitskerfi var notað á meðan heimsmeistaramótinu stóð í sumar. Það er því að þakka að umræddir hryðjuverkamenn náðu ekki að koma plönum sínum í framkvæmd.

Fjórum meðlimum Pussy Riot tókst engu að síður að hlaupa inn á völlinn í úrslitaleiknum í Moskvu eins og frægt varð.

Rússar greindu einnig frá því í apríl, tveimur mánuðum fyrir HM, að þeir höfðu stöðvað plön öfgamanna og fótboltabullna um hryðjuverk í borginni Samara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×