Erlent

Konunni sem var sýknuð af guðlasti sleppt úr fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bibi var handtekin árið 2010 og sökuð um að hafa lastað Múhammeð spámann.
Bibi var handtekin árið 2010 og sökuð um að hafa lastað Múhammeð spámann. Vísir/AP
Yfirvöld í Pakistan hafa sleppt Asiu Bibi, kristinni konu sem var nýlega sýknuð af ásökunum um guðlast, úr fangelsi. Hún hafði setið á dauðadeild í átta ár. Óttast er um öryggi Bibi en íslamskir öfgamenn hafa sagst vilja hana feiga.

AP-fréttastofan segir að mikilli leynd sé haldið um ferðir Bibi eftir að hún var flutt til höfuðborgarinnar Islamabad. Lögmaður hefur þegar flúið land og leitað hælis í Hollandi. Sjálf er hún enn sögð vera í Pakistan. Evrópuþingið hefur boðið fjölskyldu Bibi skjól.

Bibi var á sínum tíma dæmd til dauða fyrir að hafa lastað Múhammeð spámann múslima. Sjálf hefur hún sagt að ásakanirnar tengist deilu við tvær múslimakonur sem neituðu að drekka úr sama íláti og hún vegna þess að hún væri kristin.

Pakistanskir íslamista hafa engu að síður krafist þess að Bibi verði tekin af lífi og sömuleiðis þrír hæstaréttardómarar sem sýknuðu hana í síðustu viku. Efndu þeir til harðra mótmæla þar sem tugir mótmælenda voru handteknir.

Til að lægja öldurnar féllst ríkisstjórn landsins á kröfur íslamista um að sýknudómur hæstaréttar verði endurskoðuð og að Bibi yrði neitað um leyfi til að yfirgefa landið.


Tengdar fréttir

Konan sem var sýknuð af guðlasti gæti verið sett í farbann

Til að binda enda á mótmæli íslamista ætla pakistönsk stjórnvöld að setja konu sem var sýknuð af ákæru um guðlast í farbann og mótmæla ekki endurskoðun á sýknudómi hennar. Hún átti yfir höfði sér dauðadóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×