Erlent

Kína lögleiðir afurðir tígrisdýra og nashyrninga

Samúel Karl Ólason skrifar
Aukin eftirspurn eftir nashyrningahornum í Kína og annarsstaðar í suðaustur-Asíu hefur leitt til mikils veiðiþjófnaðar í Afríku.
Aukin eftirspurn eftir nashyrningahornum í Kína og annarsstaðar í suðaustur-Asíu hefur leitt til mikils veiðiþjófnaðar í Afríku. Getty/Chris Minihane
Yfirvöld Kína hafa ákveðið að lögleiða notkun afurða sem unnar eru úr tígrisdýrum og nashyrningum. Báðar þessar dýrategundir eru í mikilli útrýmingarhættu og dýraverndunarsinnar segja ákvörðunina setja þær í mikla hættu. Nýju lögin heimila þó eingöngu notkun afurða úr dýrum sem eru ræktuð.

Í yfirlýsingu frá ríkisráði Kína segir að afurðirnar megi eingöngu nota í rannsóknar- og lækningaskyni.

„Mulin horn nashyrninga og bein dauðra tígrisdýra má eingöngu nota á sjúkrahúsum af viðurkenndum læknum í hefðbundnum kínverskum læknavísindum,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir einnig að aðilum sem komi að ólöglegum viðskiptum afurðanna verði refsað harðlega.

Með þessu eru yfirvöld Kína að fella niður bann við notkun þessara afurða sem sett var á árið 1993. Því hefur lengi verið trúað í Kína að afurðir þessar hafi mikinn lækningarmátt. CNN bendir þó á að árið 2010 hafi heimssamtök kínverskra læknavísinda gefið út yfirlýsingu um að engar sannanir væru fyrir því.

Aukin eftirspurn eftir nashyrningahornum í Kína og annarsstaðar í suðaustur-Asíu hefur leitt til mikils veiðiþjófnaðar í Afríku. Þá fer umfangsmikil ræktun tígrisdýra fram í Kína. Sú ræktun hefur færst í aukana á sama tíma og viltum tígrisdýrum hefur fækkað.

World Wildlife Fund hefur kallað eftir því að Kínverjar taki áðurnefnt bann aftur upp og samtökin segja það einkar mikilvægt varðandi verndun dýrategundanna. Í yfirlýsingu þeirra segir að ákvörðunin muni hafa hræðilegar afleiðingar.


Tengdar fréttir

Fundu hræ um 90 afríkufíla í Botsvana

Dýraverndunarsamtökin Elephants Without Borders hafa fundið hræ 87 afríkufíla í Botsvana. Botsvana hefur tekið hart á veiðiþjófnaði í gegnum tíðina. Nýkjörinn forseti hefur þó dregið úr aðgerðunum.

Þveröfugar afleiðingar verndaraðgerða

Afurðir veiðiþjófnaðar eru gífurlega eftirsóttar en áætlað er að veltan á markaðnum sé um 15 milljarðar punda á ári eða tæpar tvær billjónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×