Innlent

Byggðastofnun geti ekki rækt hlutverk sitt vegna upplýsingaskorts

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá skrifstofu Byggðastofnunar á Sauðárkróki.
Frá skrifstofu Byggðastofnunar á Sauðárkróki. Fréttablaðið/Pjetur
Byggðastofnun getur ekki sinnt sínum lagalegu skyldum vegna skorts á upplýsingum í fjárlögum. Forstjóri Byggðastofnunar segir ekki hægt að gera sér grein fyrir dreifingu útgjalda ríkisins eftir landsvæðum.

Í fjórtándu grein laga um opinber fjármál kemur fram að „innan fjögurra vikna frá framlagningu frumvarps til fjárlaga skal Byggðastofnun gefa fjárlaganefnd Alþingis umsögn um áhrif frumvarpsins á byggðaþróun í landinu“. Þetta segir forstjóri Byggðastofnunar, Aðalsteinn Þorsteinsson, ekki hægt eins og staðan sé núna.

„Í frumvarpi til fjárlaga er ekki birt yfirlit yfir landfræðilega dreifingu tekna og útgjalda ríkisins. Ekki er heldur sýnd landfræðileg dreifing starfa á vegum ríkisins, opinberra hlutafélaga í eigu ríkisins og starfa í stofnunum sem hafa stóran hluta tekna sinna af fjárlögum,“ segir Aðalsteinn.

Að mati Aðalsteins er því eðlilegt að Byggðastofnun komi fyrr að gerð fjárlaga til að geta með góðu móti greint áhrif fjárlaga á byggðaþróun hér á landi. Gagnlegra væri að Byggðastofnun fengi fjármálaáætlunina til skoðunar og gæti þá gert athugasemdir við skort á byggðamarkmiðum fyrir einstök málefnasvið eftir því sem við á. Það hefði þá vonandi í för með sér að í næstu útgáfu myndu ráðuneytin gera ítarlegar grein fyrir áætluðum byggðaáhrifum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×