Fótbolti

Enn þá um 1.400 miðar eftir á leikinn gegn Sviss í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það er ekkert mál að fá miða á tix.is.
Það er ekkert mál að fá miða á tix.is. Vísir/Getty
Strákarnir okkar mæta Sviss í gríðarlega mikilvægum leik í Þjóðadeildinni í fótbolta á Laugardalsvellinum í kvöld en leikurinn hefst klukkan 18.45 og er í beinni útsendingu og í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport HD.

Miðasala hefur gengið erfiðlega eftir að slegist hefur verið um miðana undanfarin ár þegar liðinu gekk sem best en spennan er eitthvað minni fyrir þessum leik eftir skellina í fyrstu tveimur leikjum Þjóðadeildarinnar.

Um 1.400 miðar eru enn þá eftir á leikinn í kvöld en þetta kemur fram í frétt mbl.is. Um 2.500 miðar voru eftir fyrir helgi en miðasala tók smá kipp í kringum jafnteflið gegn heimsmeisturum Frakka, sérstaklega eftir að Birkir Bjarnason kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik.

Nánast hefur verið uppselt á hvern einasta heimaleik undanfarin ár en nú stefnir í að auð sæti sjáist þegar að strákarnir ganga út á Laugardalsvöllinn í kvöld á móti Sviss.

Leikurinn hefur mikla þýðingu fyrir bæði stöðu strákanna í Þjóðadeildinni sem og undankeppni EM 2020. Með sigri á liðið enn þá möguleika á að halda sér í A-deild Þjóðadeildarinnar og betri mögulega á að vera í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður til EM 2020 í byrjun desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×