Erlent

Mikil reiði eftir að maður keyrði yfir fjölda emúa og birti myndband

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn virðist hafa keyrt viljandi yfir fuglana.
Maðurinn virðist hafa keyrt viljandi yfir fuglana. Mynd/Skjáskot
Yfirvöld í Ástralíu rannsaka nú myndefni þar sem sjá má ökumann keyra, að því er virðist viljandi, yfir fjölda af emú-fuglum í óbyggðum Ástraliu.

Í frétt BBC segir að myndbandið hafi vakið mikla reiði en í því má heyra manninn fagna ákaft er hann keyrir yfir fuglana sem urðu á vegi hans.

„Þetta er frábært, náðu þessum líka, og þessum,“ heyrist maðurinn segja. Yfirvöld hafa óskað eftir upplýsingum um manninn sem þau segja hafa sýnt af sér „hræðilega mannvonsku“. Á myndbandinu sést meðal annars hvernig maðurinn snýr myndavélinni að sjálfum sér eftir að hafa keyrt á fuglana. Má glögglega sjá að maðurinn virðist vera mjög ánægður með að hafa keyrt yfir emúana.

Emúar eru stórir ófleygir fulgar sem líkjast um margt strútum. Er fuglarnir næststærsta núlifandi tegund fugla eftir strútum. Finnast þeir aðeins í Ástralíu.

Óvíst er hvar ódæðið átti sér stað innan Ástralíu en yfirvöld rannsaka nú vísbendingar þess efnis að maðurinn hafi keyrt yfir fuglana í suðurhluta landsins. Viðurlög við dýraníði eru allt að tveggja ára fangelsi og háar fjársektir, samkvæmt gildandi lögum í Suður-Ástralíu héraði.

Uppfært klukkan 11:34

Tvítugur ástralskur karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×