Erlent

Konur sem beittar hafa verið kynferðislegu ofbeldi svara Trump með nýju myllumerki í ætt við MeToo

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alyssa Milano hefur verið framarlega í #MeToo-baráttunni.
Alyssa Milano hefur verið framarlega í #MeToo-baráttunni. Vísir/Getty
Leikkonurnar Alyssa Milano, Ashley Judd og Mira Sorvino eru meðal fjölda kvenna sem hafa tjáð sig á samfélagsmiðlinum Twitter undir myllumerkinu #WhyIdidntReport. Þar greina þær frá ástæðum þess af hverju þær kærðu ekki eða sögðu ekki frá kynferðislegu ofbeldi sem þær urðu fyrir.

Herferðin er svar við tísti Donald Trump þar sem hann velti því fyrir sér af hverju sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford, sem sakaði hefur hæstaréttardómarefni Bandaríkjaforseta um kynferðislegt ofbeldi sem hún segir hafa átt sér stað fyrir þremur áratugum, hafi ekki stigið fyrr fram.

Sagðist Trump telja að ef árásin sem Ford hafi mátt þola hafi verið alvarleg hlyti hún eða foreldrar hennar að hafa kært árásina.

Þetta fór ekki vel í leikkonuna Alyssa Milano sem var í forgrunni MeToo-herferðarinnar þar sem fjölmargar konur um heim allan í mörgum mismunandi starfstéttum stigu fram og greindu frá því að þær hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Í tísti sagði hún Trump að vinsamlegast hafa sig hægan, málið væri ekki klippt og skorið og tíst hans benti til. Sagðist hún hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi tvisvar, þar af einu sinni þegar hún var unglingur. Það hafi hins vegar tekið hana þrjátíu ár að segja foreldrum sínum frá því og hún kærði málið aldrei.

Hvatti hún aðra þolendur kynferðisofbeldis til þess að stíga fram og tjá sig um ástæður þess að þær hafi ekki kært slíkt ofbeldi sem þeir hafi orðið fyrir.

Meðal þeirra sem svöruðu Milano á Twitter var leikkonan Ashley Judd.

„Í fyrsta skipti sem það gerðist var ég sjö ára. Ég sagði fyrsta fullorðna fólkinu sem ég hitti frá því. Þau sögðu: „Hann er svo fínn eldri maður, hann var ekki að meina þetta þannig“. Þegar mér var nauðgað þegar ég var fimmtán ára sagði ég bara dagbókinni minni frá því. Þegar fullorðinn einstaklingur las dagbókina sakaði hann mig um að hafa stundað kynlíf með fullorðnum,“ skrifaði Judd.

Leikkonan Mira Sorvino sagðist hafa kært fyrsta skiptið er hún varð fyrir kynferðislegu ofbeldi en engin niðurstaða komst í málið. Næst þegar hún varð fyrir slíku ofbeldi hafi henni hins vegar ekki fundist hún nægilega mikilvæg til þess að gera mál úr því.

Líkt og sjá má á svörum við við tísti Milano greinir fjöldi kvenna frá ástæðum þess að þær hafi ekki kært eða sagt frá því kynferðislega ofbeldi sem þær hafi orðið fyrir. Tíst Milano má sjá hér að ofan og nokkur tíst úr umræðunni má sjá hér að neðan.




Tengdar fréttir

„Það verður að stöðva hann“

Erna Ómarsdóttir, dansari og listræn stjórnandi Íslenska dansflokksins, er meðal þeirra sem sakað hafa belgíska listamógúlinn Jan Fabre, stofnanda Troubleyn-leikhússins og eitt stærsta nafn belgíska listaheimsins, um kynferðislega áreitni og óviðeigandi hegðun. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×