Erlent

Norlén nýr forseti sænska þingsins

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 45 ára Andreas Norlén hefur átt sæti á sænska þinginu frá árinu 2006.
Hinn 45 ára Andreas Norlén hefur átt sæti á sænska þinginu frá árinu 2006. Mynd/moderaterna
Andreas Norlén, þingmaður hægriflokksins Moderaterna, var í morgun kjörinn nýr forseti sænska þingsins. SVT greinir frá kjörinu, en sænska þingið kom í fyrsta skipti saman í morgun eftir kosningarnar 9. september.

Snúin staða er uppi í sænskum stjórnmálum eftir kosningarnar þar sem hvorug hefðbundnu blokkanna náði meirihluta. Rauðgræna blokkinn tryggði sér 144 þingsæti, bandalag borgaralegu flokkanna 143 og Svíþjóðardemókratar 62.

Bandalag borgaralegu flokkanna tilnefndu Norlén en fyrir helgi sögðust Svíþjóðardemókratar ætla að styðja þann sem borgaralegu flokkarnir tilnefndu. Åsa Lindestam, þingmaður Jafnaðarmanna, var kjörinn fyrsti varaforseti.

Hinn 45 ára Norlén hefur átt sæti á sænska þinginu frá árinu 2006. Hann gegndi stöðu lagaprófessors við Háskólann í Linköping áður en hann tók sæti á þingi.

Embætti þingforseta er valdamikið í Svíþjóð, en auk þess að stýra dagskrá þingsins tilnefnir hann forsætisráðherra sem þingið greiðir svo atkvæði um. Þingforsetanum er ætlað að vera hafinn yfir flokkapólitík, en stóru flokkarnir líta á það sem kost að hafa sinn mann í stóli þingforseta við stjórnarmyndun.

203 þingmenn greiddu atkvæði með Norlén sem nýr forseti þingsins, en 145 með Lindestam.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×