Skoðun

Lögmaður númer 109

Davíð Þorláksson skrifar
Dómsmálaráðuneyti auglýsir laus til umsóknar tuttugu leyfi til að stunda lögmennsku á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og þrjú leyfi á Akureyri.“ Það er erfitt að ímynda sér nútímalegt vestrænt ríkisvald sem myndi láta sér detta í hug að senda frá sér svona auglýsingu. Eða hvað? Íslenska ríkið auglýsti reyndar síðastliðinn fimmtudag laus til umsóknar tuttugu leyfi til leiguaksturs fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og þrjú á Akureyri.

Leigubílstjórar eru eina starfsstéttin á Íslandi sem nýtur verndar með fjöldatakmörkunum. Þessar reglur er nefnilega ekki settar neytendum til hagsbóta, heldur þeim nokkrum hundruðum sem hafa leyfi til að aka leigubílum. Engum hefur tekist að útskýra hvernig stendur á því og af hverju lögmál um framboð og eftirspurn ættu ekki að gilda um þessa atvinnugrein. Aðrir atvinnubílstjórar, svo sem sendi- og rútubílstjórar, virðast ekki vera í vandræðum með að rata um öngstræti hins frjálsa markaðar.

Afnám hindrananna myndi hafa margvísleg jákvæð áhrif í för með sér fyrir neytendur og efnahagslífið í heild. Dyr myndu opnast fyrir farveitur, eins og Uber og Lyft sem hafa það að markmiði að greiða fyrir umferð, til að koma inn á markaðinn. Verð mun lækka, þjónusta batna, engin þörf verður fyrir leigubílastæði, sveigjanleiki og öryggi eykst auk þess sem afnámið mun fela í sér þjóðhagslegan ábata.

Eftirlitsstofnun EFTA er búin að benda íslenskum stjórnvöldum á að þetta fyrirkomulag standist ekki. Samkeppni og frjáls markaður á nefnilega erindi alls staðar. Það gilda engin sérstök hagfræðilögmál um íslenska leigubílamarkaðinn sem kalla á aðgangshindranir.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×