Viðskipti innlent

Á þriðja tug sagt upp hjá Icelandair

Birgir Olgeirsson skrifar
Íslensku flugfélögin hafa fundið fyrir harðnandi samkeppni og hækkun á olíuverði.
Íslensku flugfélögin hafa fundið fyrir harðnandi samkeppni og hækkun á olíuverði. Vísir/Vilhelm
Á þriðja tug hefur verið sagt upp störfum hjá flugfélaginu Icelandair í vikunni. Þetta staðfestir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Vísi.

Hann segir uppsagnirnar ná til starfsfólks á ýmsum sviðum og deildum starfsstöðva flugfélagsins í Reykjavík og Keflavík.

Sagði hann þetta vera lið í hagræðingaraðgerðum sem félagið hefur gripið til að undanförnu, en félagið hefur farið í gegnum mikla erfiðleika á markaði sökum harðnandi samkeppni og hækkandi olíuverðs.

Hann gat ekki sagt til um á hvaða sviðum og í hvaða deildum uppsagnirnar eru. 

Guðjón sagði þessa aðgerð flugfélagsins ekki teljast til hópuppsagnar, sem hefði þá þurft að tilkynna til Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt skilgreiningu stofnunarinnar telst það til hópuppsagnar ef að minnsta kosti 10 starfsmönnum er sagt upp í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu, að minnsta kosti 10 prósent starfsmanna í fyrirtækjum sé sagt upp sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn en færri en 300 í vinnu, og að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.

Í ágúst síðastliðnum voru færðar fregnir af því að Icelandair ætli að færa hluta bak- og bókhaldsvinnslu fyrirtækisins til eistnesks dótturfélags.  Þá hefur flugfélagið gert flugfreyjum og flugþjónum í hlutastarfi að þiggja fullt starf, ellegar verði samið um starfslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×