Viðskipti innlent

Helgi ekki hættur hjá Icelandair

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Helgi Már Björgvinsson er lykilstjórnandi hjá Icelandair Group og hefur starfað hjá flugfélaginu síðan 1999.
Helgi Már Björgvinsson er lykilstjórnandi hjá Icelandair Group og hefur starfað hjá flugfélaginu síðan 1999. vísir
Helgi Björgvinsson, lykilstjórnandi hjá Icelandair og starfsmaður flugfélagsins undanfarna tvo áratugi, greinir frá því að hann sé ekki hættur hjá flugfélaginu. Helgi segist sjá sig knúinn til að tilkynna þetta eftir mola í Markaði Fréttablaðsins í gær þess efnis að hann hefði nýlega látið af störfum.

Molinn var leiðréttur og beðist afsökunar á fréttinni á Fréttablaðið.is.

„Ég vildi bara tilkynna ykkur, kæru FB vinir, að fréttir af starfslokum mínum hjá Icelandair í Markaðnum í dag eru stórlega ýktar og flokkast sennilega undir „fake news",“ segir Helgi.

Í Skotsilfri Markaðarins var vísað í heimildir þess efnis að hann væri hættur.

„Ég sá mig knúinn til að leiðrétta þessar rangfærslur þ.s. ég hef fengið fjölda símtala og skilaboða í dag frá fjölskyldu, vinum, samstarfsfélögum ofl. Ég hef unnið hjá Icelandair mörg undanfarin ár í krefjandi og skemmtilegum störfum með frábæru samstarfsfólki og hlakka til að taka þátt í frekari uppbyggingu fyrirtækisins.“

Helgi hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur arftaki Björgólfs Jóhannssonar sem forstjóri Icelandair Group. Bogi Nils Bogason gegnir starfinu tímabundið eftir að Björgólfur lét af störfum í ágúst. Eins og fram hefur komið mun erlent ráðgjafafyrirtæki koma að ráðningu nýs forstjóra.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×