Erlent

Trump hafnar tölum um mannskaða á Púertó Ríkó

Kjartan Kjartansson skrifar
Þegar Trump heimsótti Púertó Ríkó rétt eftir að María gekk yfir sagði hann fólki sem hann hitti meðal annars að skemmta sér vel.
Þegar Trump heimsótti Púertó Ríkó rétt eftir að María gekk yfir sagði hann fólki sem hann hitti meðal annars að skemmta sér vel. Vísir/EPA
Tæplega þrjú þúsund íbúar Púertó Ríkó fórust ekki af völdum fellibylsins Maríu eins og áætlað hefur verið, að sögn Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann sakar demókrata jafnframt rakalaust um að hafa „búið“ til hærri tölu um mannskaða til að koma höggi á sig.

Athygli vakti þegar Trump stærði sig af því í gær að ríkisstjórn hans hefði staðið sig „stórkostlega“ í viðbrögðum við fellibylnum Maríu sem gekk yfir Púertó Ríkó, sem er yfirráðasvæði Bandaríkjanna, fyrir ári. Viðbrögðin hefðu enn fremur ekki „hlotið það lof sem þau áttu skilið“.

Þetta fullyrti forsetinn þrátt fyrir að nýleg rannsókn George Washington-háskóla hafi áætlað að 2.975 manns hefðu látið lífið vegna fellibylsins og skorts á heilbrigðisþjónustu, rafmagni og hreinu vatni mánuðina á eftir. Yfirvöld á eyjunni höfðu áður aðeins talið að 64 hefðu farist vegna hamfaranna.

Á Twitter ýjaði forseti Bandaríkjanna að því að það væri hann sjálfur sem væri raunverulegt fórnarlamb hamfaranna á Púertó Ríkó og að það væri demókrötum að kenna.

„3.000 manns dóu ekki í fellibyljunum tveimur sem gengu yfir Púertó Ríkó. Þegar ég yfirgaf eyjuna EFTIR að stormurinn fór yfir voru þeir með hvar sem er á milli 6 og 18 dauðsföll. Eftir því sem tíminn leið hækkaði það ekki mikið,“ tísti Trump þrátt fyrir að opinberar tölur um mannskaða hefðu hækkað um tugi manna frá þeim tölum sem hann hafði heyrt fyrst eftir að María gekk yfir.

„Það voru demókratar sem gerðu þetta til þess að reyna að láta mig líta út eins illa og mögulegt er þegar ég var að ná árangri í að safna milljörðum dollara til að hjálpa til við endurreisn Púertó Ríkó. Ef manneskja deyr af einhverri ástæðu, eins og hárri elli, bætum henni þá bara á listann. Slæm pólitík. Ég elska Púertó Ríkó,“ tísti Trump.

Washington Post bendir á að aðferðafræði rannsóknarinnar sem Ricardo Rosselló, ríkisstjóri Púertó Ríkó, lét gera bjóði ekki upp á að fólk sem dó af náttúrulegum orsökum væri talið sem fórnarlömb hamfaranna. Rannsakendurnir báru saman dánartíðnina á eyjunni í kjölfar Maríu saman við þá sem hefði verið að vænta án fellibylsins.

Jafnvel sumir þingmenn repúblikana gagnrýndu nýjustu tíst forsetans, sem hefur áður sakað íbúa Púertó Ríkó um að vilja fá allt upp í hendurnar eftir Maríu. Þannig sagðist Ileana Ros Lehtinen, fulltrúadeildarþingmaður repúblikana frá Flórída, leggja trúnað á niðurstöður rannsóknar háskólans.

„Hvers konar hugur snýr út úr þessari tölfræði yfir í „Ó, falsfréttir eru að reyna að skaða ímynd mína“. Hvernig geturðu verið svona sjálfhverfur og reynt að brengla sannleikann svona. Manni ofbýður,“ sagði Lehtinen.


Tengdar fréttir

Tala látinna hækkuð úr 64 í 2.975

Ríkisstjóri Púertó Ríkó hefur hækkað opinbera tölu látinna vegna fellibylsins María sem fór þar yfir fyrir rúmu hálfu ári úr 64 í 2.975.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×