Viðskipti innlent

Skúli vill allt að 33 milljarða innan átján mánaða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skúli Mogensen er stofnandi og forstjóri Wow Air.
Skúli Mogensen er stofnandi og forstjóri Wow Air. Vísir/Getty
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, stefnir að því að félagið sæki sér allt að 300 milljónir dollara, um 33 milljarða króna, í hlutafjárútboði innan átján mánaða. Það er fimmfalt hærri upphæð en stefnt er að því að safna með yfirstandandi skuldabréfaútboði félagsins.

Þetta kemur fram í frétt Financial Times þar sem segir að Skúli telji sig geta fengið 200 til 300 milljónir dollara, 21 til 33 milljarða króna, með því að selja minna en helming hlutafjár í félaginu. Þá kemur einnig fram að Skúli gefi ekki upp heildarvirði félagsins.

Ítarlega hefur verið fjallað um fjárhagserfiðleika Wow Air að undanförnu en félagið er á lokametrunum að sækja sér fjármagn með skuldabréfaútboði. Fyrir helgi var tilkynnt að lágmarksstærð þess hefði verið náð, 50 milljónir evra eða því sem nemur 6,5 milljörðum króna. Skuldabréfafjármögnun WOW air er hugsuð sem brúarfjármögnun fram að áformuðu hlutafjárútboði.

Í frétt Financial Times viðurkennir Skúli að félaginu hafi ekki tekist nægjanlega vel að að halda niðri eldsneytiskostnaði en greint var frá því í síðasta mánuði að olíukostnaður væri fjórðungur af tekjum WOW Air á síðasta ári. Þá hefur félagið ekki varið sig fyrir sveiflum í olíuverði, líkt og til dæmis Icelandair. Það sé nú hins vegar til endurskoðunar.

„Eldsneytið hefur klárlega unnið gegn okkur, við erum ekki varin en við erum að endurskoða þá stefnu,“ segir Skúli.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×