Innlent

Úttekt gerð á vinnustaðamenningu OR: Borgarfulltrúi segist hafa upplýsingar um fleiri atvik

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Birgir Olgeirsson skrifa
Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR.
Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR. fréttablaðið/eyþór
Ósk forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur um að stíga tímabundið til hliðar verður tekin fyrir á fundi stjórnar fyrirtækisins sem haldinn verður eins fljótt og auðið er.

Þetta segir Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, í tilkynningu til fjölmiðla.

Þar segir hún ósk forstjóra hafa borist henni fyrr í kvöld.

Brynhildur segir jafnframt að þegar hafi verið óskað eftir því við Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gerð verði úttekt á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum hjá fyrirtækinu. Segir Brynhildur undirbúning þeirrar úttektar þegar hafinn.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, sagðist hafa óskað eftir því að víkja tímabundið á meðan þau mál sem komið hafa upp hjá fyrirtækinu verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðamenningu fyrirtækisins.

Bjarna Má Júlíussyni, forstjóra Orku náttúrunnar, var sagt upp störfum í síðustu viku vegna óeðlilegrar hegðunar í garð starfsfólks fyrirtækisins.

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.Vísir/Stefán

Málið fór af stað vegna uppsagnar

Málið má rekja til uppsagnar Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sem var forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúru. Einar Bárðarson, eiginmaður hennar, sagði frá því að hann hefði átt fund með forstjóra stórfyrirtækis og greint honum frá óviðeigandi og dónalegri framgöngu framkvæmdastjóra hans.

Einar sagði að forstjórinn, sem seinna kom í ljós að var Bjarni Bjarnason forstjóri OR hafi gefið lítið fyrir þetta. En, Bjarni kallaði engu að síður saman stjórn ON, en ON er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur og í kjölfarið var framkvæmdastjórinn, Bjarni Már Júlíusson rekinn.

Bjarni Bjarnason sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að hann hefði ekki haft sömu upplifun af fundinum og Einar. Bjarni sagðist hafa litið málið mjög alvarlegum augum og að hann hefði ekki vitað af þessum málum sem vörðuðu framkvæmdastjóra ON. Áslaug fullyrti í dag að forstjórinn hefði verið fullmeðvitaður um þessi mál og lýsti yfir furðu sinni að hann hefði notið stuðnings stjórnarformanns OR.

 

Hættu við tímabundna ráðningu vegna ásakana

Í kvöld var greint frá því að Þórður Ásmundsson hefði ekki tekið við framkvæmdastjórastöðu ON vegna ásakana um kynferðisbrot.

Stjórnendur Orkuveitunnar fengu upplýsingar um ásakanirnar á föstudag og var ákveðið að senda Þórð í leyfi. Greint var frá því kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að þessar ásakanir tengdust ekki störfum Þórðar hjá ON og hefðu komið fram áður en hann hóf störf hjá fyrirtækinu.

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjamarkaða Orku náttúrunnar, hefur tekið tímabundið við starfi framkvæmdastjóra ON.

Borgarfulltrúi hefur fengið upplýsingar um fleiri atvik

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld að hún hefði fengið upplýsingar um fleiri atvik þar sem óviðeigandi hegðun var lýst.



„Mér eru að berast ýmsar upplýsingar, ekkert sem ég get tilgreint nákvæmlega á þessu stigi málsins, en það gefur tilefni til að kortleggja aðeins betur stöðuna,“ sagði Hildur.


Tengdar fréttir

Forstjóri OR stígur tímabundið til hliðar

Bjarni segir í tilkynningunni að hann hafi óskað eftir því á meðan þau mál sem komið hafa upp verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðamenningu fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×